þriðjudagur, 15. september 2009

Ermarsund 2009 er lokið. Orustan er töpuð en stríðið er ekki búið

Í gærkvöldi áttum við góðar stundir með þeim Evelyn og David á Varne Rigde. Bjössi eða Ísbjörnin eins og við köllum hann galdraði fram dýrindis kvöldverð handa okkur öllum. Evelyn og David eru orðnir góðir vinir okkar og næsta ferð þeirra verður til Íslands.
Bjössa kokkar og Evelyn fylgist með.

Í morgun hringdi Andy skipstjóri og tjáði okkur að ekkert verður af kraftaverkinu.  Ekkert veðurgat verður fyrr en fyrsta lagi eftir helgi og þá verður fresturinn okkar löngu búinn. 

Eftir fréttirnar var pakkað saman og við flugum heim í dag. 

Orustan er töpuð en stríðið er ekki búið. Við munum reyna aftur. 

Við viljum þakka öllum styrktaraðilum kærlega fyrir stuðningin.  Vinum og kunningum þökkum við fyrir hlýlegar kveðjur á blogsíðunni.

mánudagur, 14. september 2009

Við þurfum kraftaverk


Það er orðið nokkuð ljóst að við syndum ekki Ermarsundið í ár.  Við áttum fund með Andy King í morgun og hann sagði að við þurfum meira en veður-kraftaverk til að klára þetta fyrir föstudaginn en þá líkur rétti okkar.

Skipstjórinn ræður öllu enda er það vel skiljanlegt.  Það hafa orðið dauðsföll af því að fólk er að fara í tvísýnu. Ein boðsundsveit fór út í tvísýnu veðri og eftir 3 klst vildi skipstjórinn hætta. Meðlimir boðsundsveitar voru ekki sáttir og rifust við skipstjórann. Á meðan gleymdu þau að fylgjast með þeim sem var að synda og týndu honum. Hann hefur ekki fundist síðan. Eftir þetta voru reglurnar gerðar skýrari með að skipstjórinn hefur lokaorðið. Annað dæmi var einstaklingssundmaður sem lennti stórri öldu og fannst ekki eftir það.

Þótt það virðist vera skaplegt veður hér í Dover á íslenskan mælinkvarða þá er bræla út á Ermarsundinu.  Þá er ég ekki að tala um brælu sem miðast við sjósund heldur 2m +, ölduhæð sem er telst vera bræla fyrir meðalstórar trillur.

Enginn hefur synt síðan á þriðjudaginn var. Gestgjafar okkar, Evelyn og David segja að þetta sé versta sumar í þau 13 ár sem þau hafa rekið þennan gististað. Hérna bíður fólk eftir að veðrið skáni en margir hafa gefist upp og farið heim. Við höfum frétt af einum sem fór heim til Ástralíu en ætlar að koma aftur í næsta mánuði. Engin kreppa þar!

Kannski gerist kraftaverkið í nótt ...

Rigning og rok !

Rigning og rok kl 08:30 í morgun
Veðurspáin sem var nógu slæm fyrir, hefur versnað.  Vindur 8-11 m/s, 14°-16° rok og rigning með sólarglætu á milli.  Þetta þýðir á Ermarsundinu 1,5 - 3,0 m ölduhæð gjörsamlega ófært til að synda. Í morgun voru sundmenn í sama sundhólfi og við, frá Írlandi, Bandaríkjunum og Bretlandi að kveðja þau Evelyn og David hjá Varne Rigde.
Sjá veðurspá á yr.no og vindaspá á windguru
 Höldum fund með Andy King eftir 2 klst.

sunnudagur, 13. september 2009

Veik von

Fallegt sjósundfólk
Í morgun gerðum við okkur vonir um að veðurgat væri að myndast á þriðjudaginn en svo virðist sem veðurguðirnir séu okkur ekki hliðhollir.  Við töluðum við Andy í King í dag og hann var ekki bjartsýnn fyrir þriðjudaginn og alla næstu viku en sundvikan okkar endar á föstudaginn og Andy er fullbókaður næstu vikurnar.  Norðaustan strengurinn mun halda áfram að gera sjóinn á Ermarsundinu að þvottavél; 1,5 til 2 m ölduhæð og 10-14 m/s, fram að föstudeginum.  Agjörlega glórulaust að reyna við það hvort sem það er ein leið eða tvær.
Hópurinn á æfingu í gær

Við erum í sömu sporum og allir aðrir sundmenn sem bíða eftir góðu veðri.  Írarnir, sem eru hér með okkur á Varne Ridge töluðu um hvort það þurfi að fara fórna geit eða jafnvel einhverju stærra fyrir veðurguðina :)
Hópurinn við Varne Rigde
Við höldum í vonina því veðurspár eru tvísýnar og það þarf tiltölulega lítið til að gera aðstæður mun betri.  Á morgun verðum við aftur í sambandi við Andy King skipstjóra og þá kemst þetta nokkuð veginn á hreint.

laugardagur, 12. september 2009

Birna týnd, skítið á kokkinn,Benni á safni, grillveisla og Dan hin ótrúlegi

Strákarnir týndir !
Það rættist lítið úr óskum okkar með að veðurhæðin færðist eitthvað til í dag.  Því var farið í næsta bæ til að dreifa huganum í verslunamiðstöð.  Þar komst Mamma ferðarinnar,Birna, í verslunavímu og gleymdi eitt augnablik að sjá um strákana.  Þeir ráfuðum út í buskann og týndust en fundust fljótlega aftur.
Birna kemur upp úr úfnum sjónum (ýtið á mynd á til að stækka)

Þegar strákarnir voru búnir að ná sér var farið í höfnina í Dover og tekinn æfing.  "Mamman" var lengst, 1 klst og 15 mín.  Á meðan Birna djöflaðist í úfnum sjónum slökuðu strákarnir á eftir sundið.  Mávarnir virtust eitthvað vera óánægðir með okkur strákana því þeir tóku sig til skítu beint á skallann á Bjössa !

Sjórinn hefur verið úfinn og leiðinlegur í höfninni.
Eftir sundið tékkuðum við á sögusafninu í Dover.  Eitt hornið í safninu var tileinkað Ermarsundinu og hetjum þess og þ.á.m. yfirlit yfir árangur síðasta árs (2008) og á listanum var elsti sundmaðurinn (51), Benni okkar Hjartarson.
Benni á listanum (Ýtið á til að stækka )
Um kvöldið var okkur boðið í matarboð sem þau Evelyn og David héldu fyrir sundmenn.  Þar hittum við ansi skrautlegan og ótrúlegan Breta að nafni Dan Martin.  Hann stefnir á heimsþríþraut !  Þríþrautin gengur út á það að synda yfir Atlantshafið frá New York, hlaupa til Moskvu og hjóla síðan restina yfir Síberíu og til New York !  Þetta hefur aldrei verið reynt en hann ætlar að byrja 8. maí á næsta ári.
 Bjössi með Dan Martin
Heimir og Bjössi áttu gott spjall við kappann og meðal annars sagði hann frá hjólaferð frá Suður Kóreu til Cape Town í Suður Afríku fyrir 4 árum síðan.  Hann lenti í ótrúlegustu ævintýrum á leiðinni enda hjólaði hann í gegnum hættulegustu ríki heimsins, Afganistan, Írak og nokkur vafasöm Afríkuríki. Í Eþíópíu varð honum á að hjóla á konu og stórslasa hana og sjálfan sig.  Eftir slysið var honum fleygt í fangelsi án læknishjálpar og dæmdur þar til dauða !  Á síðustu stundu bjargaði Breska Sendiráðið honum og hann fékk læknishjálp í kjölfarið.
 Á spjalli við aðra Ermarsundgarpar
Það var mikið talað um veður í veislunni og margir búnir að bíða ansi lengi eftir góðu sund veðri.  Margir búnir að leggja mikið á sig og sáu fram á að þurfa að hætta við sundið vegna dyttjóttra veðurguða.

föstudagur, 11. september 2009

Fyrsti dagur í sundrétti. Fundur með Andy

Andy ekki bjarsýnn á helgina
Þessi fyrsti dagur í sundrétti (11. sept-18. sept) byrjaði með góðum fundi með Andy King.  Hann talaði um það væri mjög lítil von um helgina og mánudagurinn væri tæpur.  Þó þetta líti þokkalega út Englandsmegin þá er mikil bræla Frakklandsmegin.   Svo virðist sem veðurhæðinn fyrir ofan England ætli að halda norðan strengnum niður Ermarsundið yfir helgina.

September er vinsæll mánuður hjá Ermarsundgörpum og það er mikið af sundmönnum sem eru í sama sundhólfi og við. Eins og aðrir sundmenn, hvort sem þeir eru í boðsundi eða einstaklings, þá lítur út fyrir að við þurfum að bíða eitthvað eftir því að takast á við Ermarsundið.

Eftir hádegisæfingu skruppum við í bíltúr um nágrenni Dover.  Síðan var verslað í matinn og Bjössi galdraði fram fimm stjörnu hlaðborð.
 

Að lokum má benda á að Heiðar Snyrtir heldur daðurnámskeið í VR þessa dagana.  Mælum sterklega með því :)

Myndir frá Jóni

Ljósmyndarinn okkar, Jón Svavarsson, er búinn að ljósmynda grimmt seinustu tvo daga.  Komnar eru myndir inn á heimasíðu hans:
09.09.2009 og 10.09.2009

Ermarsundið kl 8:00 í morgun


Ermarsundið leit ágætlega út núna áðan.  Það er frekar kalt og skýjað sem gerir norðaustan strenginn minni en ella. Hittum ungan Íra; 16 ára gamlan sem ætlar að þreyja Ermarsund, og hann talaði um að hann væri bjartsýnni en áður fyrir helginni.  Hittum Andy skipstjóra á eftir. Við erum tilbúinn í hvað sem er og hvenær sem er !

fimmtudagur, 10. september 2009

Breska Landhelgisgæslan mun fylgjast með okkur

Dagurinn byrjaði á kjarngóðum morgunmati "ala" Bjössa kokks en eins og við segjum hér út "Greatest kokk in Iceland" :)
Bjössi,Hrafnkell,Dáni og Birna gæða sér á fyrsta flokks orku-morgunverði
Síðan var farið í heimsókn í stjórnstöð Landhelgisgæslunar í Dover. Hún fylgist með og stjórnar allri skipaumferð um Ermarsundið en hún er ein sú mesta í heiminum. 
Yfirmaður stjórnstöðvar lýsir aðstæðum í Ermarsundinu

Þar var okkur sýnt endurspilun á sundi síðan á þriðjudaginn og þar sést vel hversu sjávarföllinn skipta miklu máli í sundinu.  Til gamans má geta að sex kláruðu af sjö.

Gríðalega skipaumferð í Ermarsundinu
Upp úr hádegi skelltum við okkur á höfnina í Dover og tókum 1 klst æfingu.  Allir fíluðu sig vel enda vel úthvíldir eftir góðan nætursvefn.
Höfnin í Dover. Sundleiðinn í dag (ýtið á til að stækka)
Við þurftum að láta skipta um öll dekkinn á bílaleigubílnum því það kom í ljós í morgun að dekkinn voru orðinn eydd niður í striga.  Ef við hefðum verið tekinn með þessi dekk þá hefði sektinn verið 10.000 pund og síðan ekki síst eru þau lífshættuleg !  Nokkuð ljóst að við munum ekki sættur okkur við þetta og húrra fyrir FIB !
Svona dekk eru lífshættuleg !
Það stefnir í að við förum ekki á stað fyrr en í fyrsta lagi aðfaranótt mánudags.  Yfir helgina verður stíf norðaustanátt, 8-10 m/s eftir öllu sundinu.  Rétt fyrir norðan okkar er ekki nema 2 m/s þannig að vindurinn er staðbundinn akkurat við Ermarsundið og það þarf lítið til að þetta batni til muna.

Rétturinn okkar byrjar á morgun (föstudagur) og við munum taka fund með Andy skipstjóra kl 10:30.

miðvikudagur, 9. september 2009

Lent og kominn til Dover

Hálfdán,Hrafnkell og Birna á Gatwick

Lentum á Gatwick rétt fyrir kl 11:00. Tókum bílaleigubíl sem varla rúmaði okkur og þurftum við að púsla okkur inn í bílinn þar sem Bjössi sat "vacuum" pakkaður aftast í bílnum.  Jón Svavarsson ljósmyndari ætlaði að fá far með okkur en sökum plássleysis þurfti hann að taka lestina til Dover.  Hann mun fylgjast með okkur og ljósmynda á meðan við erum hér úti.

Á leiðinni stoppuðum við og fengum okkar að borða af Kínversku hlaðborði í ónefndum smábæ mitt á milli Gatwick og Dover. 

Það voru góðir endurfundir þegar við komum til Varne Rigde og hittum  þau Evelyn og David. 

Eftir knús og nokkrar hlátraskelli í Varne Rigde var farið í höfnina í Dover og tekin 30 mín æfing til að liðka okkur eftir ferðina. 

Það var háflóð og mjög úfinn sjór í höfninni enda 8 m/s.  Nokkuð ljóst að það var algjörlega ófært í Ermarsund í dag og var enginn að synda í höfninni nema við.

Í kvöld tökum góða pastaæfingu og reynum að sofna snemma.  Veðurspáinn er tvísýn fyrir helgina en sundréttur okkar byrjar á föstudaginn.

mánudagur, 7. september 2009

2 dagar í brottför

Seinustu dagar hafa farið í lokaundirbúning og í kvöld var lokafundur til að klára lausa enda.

Stemmingin í hópnum er mjög þétt og allir vel einbeyttir.
Á miðvikudaginn verður flogið til London og þaðan keyrt til Dover. Gist verður hjá þeim Evelyn og David í Varne Rigde sem er rétt sunnan við Dover.  Miðað við góðu stundirnar seinast þá eigum við von á hlýjum móttökum.  Fyrsti dagurinn okkar í sundréttinum er á föstudaginn.  Veðurspáinn er tvísýn og er möguleiki að við förum á stað aðfaranótt Laugardagsins.

Að gefnu tilefni er vert að rifa upp nokkrar staðreyndir um boðsund í Ermarsundinu:

Stefnt verður á báðar leiðir, frá England til Frakklands og aftur til baka. Boðsundsveitin hefur fyrsta rétt dagana 11.09-18.09.


Ermarsundgarparnir eru 6 manna boðsundsveit reyndra sjósundmanna og kvenna úr Sundfélagi Hafnarfjarðar sem ætlar synda báðar leiðir eða um 90 km sund.


Alls hafa um 3.520 sundmenn tekið þátt í 592 boðsundum sem hafa tekist. 315 hafa farið fram og til baka. Það er um 40 prósent sem mistekst.  Sumir komast ekki af stað vegna veðurs og aðrir gefast upp vegna veðurs, sjóveiki og þreytu. Það eru mjög strangar reglur sem gilda um sundið. Ef einn í sveitinni er til dæmis sjóveikur og kemst ekki út í, þá er boðsundið ógilt.


Heimsmetið báðar leiðir á bandaríska landsliðið í sundi, 14 klst. og 18 mín. Við erum að gera okkur vonir um vera 20 - 24 klst báðar leiðir ef veður og sjólag leyfir.

Sundmenn og boðsundsveitir eru háð skipstjóranum en hann ræður algjörlega ferðinni. Hann metur veður og sjólag og getu sundmanna sinna til að takast á við sjólagið hverju sinni. Við höfum lagt áherslu að við séum vön köldum sjó og sjólagi. Hann hefur tekið tillit til þess en hinsvegar bent okkur á að hann geti ekki tryggt öryggi okkar við vissar aðstæður.


Hvort sem það er einstaklingssund eða boðsund þá fer þetta allt eftir sjávarföllum, straumum, veðrum og síðan ekki síst alhliða sjósundformi þeirra sem synda. Það er ekki bara hraði og sundgeta sem skiptir máli heldur koma fleiri þættir inn eins og kuldaþol, langtímaþrek og síðan ekki síst hugarfarið.

Nokkrir minnispunktar um Ermarsundgarpana:
  • Boðsundsveitin, samanstendur af 6 einstaklingum. Ein kona og 5 karlmenn. Heimir Örn Sveinsson, Hrafnkell Marinósson, Hilmar Hreinsson, Birna Jóhanna Ólafsdóttir, Björn Ásgeir Guðmundsson og Hálfdán Freyr Örnólfsson. Allir með mikla og víðtæka reynslu í sjósundi
  • Í fyrra fór sveitin ásamt Benedikt Hjartarsyni, í leiðangur í að sigra Ermarsundið. Benni var með 3. og boðsundsveit 4. sundrétt. Benedikt kláraði sitt sund með stæl en boðsundsveit, sem ætlaði fram og til baka komst ekki af stað vegna veðurs.
  • Boðsundsveit (Icelandic Open Water Team) ætlar nú að klára verkefnið, fram og til baka. Það hefur tryggt sér 1. sundrétt dagana 11.09 til 18.09. Það eru góðar líkur á að þessum úrvalshópi takist ætlunarverk sitt og standi sigurreifir á Frakklands og Englandsströndum eftir um 90 km sund.
  • Heimasíða leiðangurins http://www.ermarsund.com/ sló rækilega í gegn í fyrra. Um 17 þúsund manns heimsóttu hana á meðan á sundinu stóð. Síðan var uppfærð á 30 mín fresti með fréttum,myndum og staðsetningu sundsins. Stefnt er af því endurtaka þetta

þriðjudagur, 1. september 2009

Æfingar fyrir Ermarsundið


Hrafnkell, Birna og Hilmar
Á laugardaginn tókum við Birna,Heimir,Hilmar og Hrafnkell 25 mín kuldaæfingu í 7° heitum sjónum við Brúsastaði í Hafnarfirði. Hilmar og Hrafnkell hafa sótt þennan fágæta sjósundstað um nokkurn tíma. Vegna mikillar ferskvatns er sjórinn mun kaldari en annarstaðar. Þótt sjávarhiti Ermarsundsins sé margfalt hlýrra þá verður helmingur Ermarsundsins í myrkri og okkur mun kólna talsvert fyrir vikið og því er þetta góð æfing.
Hópurinn tilbúinn í Ermarsund æfingu
 
Í gær sigldi Ísleifur ITR með okkur út í Skerjafjörðinn þar sem við tókum Ermarsundæfingu. Hver synti í 15 mín, vegalengd og meðalhraði tekinn niður með GPS og Nokia Sports Tracker. Tímarnir munu verða notaðir til að meta niðurröðina í sveitinni þegar við mætum til Dover 9. sept.  Aðstæður voru góðar, háflóð og 11° sjór. Allar skiptingar tókust vel og mannskapurinn meira enn tilbúinn fyrir 90-100 km, 24-26 klst boðsund fram og til baka í Ermarsundinu. Afraksturinn sundsins má sjá á hér  
 
Ath. hægt er að sjá myndir á plottinu og betra að stilla á Satellite.