sunnudagur, 29. júní 2008

Vel heppnuðu æfingasundi lokið

Vel heppnuðu æfingasundi við erfiðar aðstæður frá Hafnarfjarðarhöfn að bauju, út fyrir Straumsvík og til baka aftur er nú lokið. Hvítfyssandi brælan, NA áttin, og 8 gráður heitur sjór við bauju var erfið en um leið fín æfing. Heimir kláraði sundið inn að Fjörukránni í Hafnarfirði. Vegalengd sundsins var 6100 m og við vorum rúmar 2 klst. Benedikt synti með hópnum alveg að baugu og var 1 klst, Heimir var 45 mín og Birna, Ásgeir,Hrafnkell og Kristinn 20 mín í sjónum.

Matargjöf og skiptingar gengu vel en Nokia N95 tækið fraus og síðan tæmdist rafhlaðan rétt eftir að Heimir skipti við Kela. Þetti gerði það að verkum Nokia Sports Tracker virkaði bara hluta af leiðinni til baka . Bloggið virkaði vel að baugu eins sést á færslunum hér fyrir neðan. Þessi tæknilegu vandamál verða löguð fyrir Ermarsundið.
Við viljum þakka eiginmanni Birnu, Vilhjálmi Ólafssyni fyrir góða skipstjórn.

Komnir að bauju

Hrafnkell kominn út í og Benni og Kristinn upp úr.

Baujan nàlgast

Kristinn og Benni út í. Benni búinn að vera 50 mín út í !

Ásgeir skiptir v Kristinn

Sjòrinn 8 gráður. Kominn 3 km

Komin út fyrir suðurbakkann

Sjá hvíta flipann á korti

Asgeir jarnkall kominn út í

Sjórinn 9 gráður

Kominn að hafnarminni

14 mín liðnar. Sjorinn mjög kaldur. Æfum matargjafir og lightstick

Benni og Birna byrja

Baujusund

Erum kominn í land eftir að hafa tékkað á aðstæðum. Brjáluð bræla út fyrir Álftanes og ekkert vit í Helguvik - Hfn sund. Ætlum að taka æfingasund úr Hfn og út að fyrstu bauju. Hægt að fylgjast með staðsetningu á sportstracker.nokia.com

Helguvík - Hafnarfjarðahöfn

Ætlum að skoða Helguvík á Alftanesi - Hafnarfj

Æfingasund í stað Akranessund vegna veðurs og sjólags

það er áskorun að stunda sjósund á Íslandi. Fyrir utan kaldan sjóinn er veðurfar risjótt og ekki hægt að treysta á veðurspár langt fram í tímann en hún hefur breyst til hins verra frá því á föstudaginn. Það er spáð NA 8-15 ms á Faxaflóanum sem þýðir mjög úfinn og slæman sjó á móti og því glórulaust að reyna við Akranessund. Tekin verður stöðufundur kl 09:30. Þá verður tekin ákvörðun um annað og styttra æfingasund.

Inn á síðunni http://sportstracker.nokia.com/ verður hægt að fylgjast með staðsetningu sundsins. Á landakorti á forsíðu er rauði blikkandi depilinn yfir Íslandi valinn. Síðan þarf að velja S (Satellite view) á stiku.

föstudagur, 27. júní 2008

Akranessund á sunnudaginn

Á sunnudaginn stefnir sjósundlandslið Íslands og ég á að synda upp á Skaga og til baka ef veður og sjólag leyfir. Sundið er liður í undirbúningi fyrir Ermarsund 2008 Synt verður frá Seltjarnarnesi, sömu leið og Eyjólfur sundkappi fór forðum.

Sjá meira á um þetta á http://sjosund.blogspot.com/

miðvikudagur, 25. júní 2008

Útvarpsviðtalið

Hér er líka linkurinn:http://http.ruv.straumar.is/static.ruv.is/benedikthjartarson.wma

Þetta er komið á forsíðuna á www.ruv.is, skrollaðu bara soldið niður, þá er þetta hægra megin.

mánudagur, 23. júní 2008

Fjórir tímar og 18 mín

Sunnudagsmorguninn 22. júní tókum við Ásgeir járnkarl góða æfingu saman í sjónum. Syntum í fjórar stundir og 18 mínútur. Við héldum hraðanum 15 mín. á kílómetrann og erum bara mjög sáttir við það. Með þessari æfingu var ég að prófa að taka strax á fitubrennslunni og matarræðið fyrir sundið var á þann veg. Ásgeir er ögn hraðari en varð að hætta tveim kílómetrum fyrr vegna núnings frá sundklæðnaðinum. Þetta var kærkomin æfing í stað sundsins til Akranesar sem ég ætlaði í en komst ekki vegna bátaleysis. Sundið lofar einnig góðu þar sem ég hef fækkað sundtökum um 20% og aukið langtímahraða úr 20 mín. með kílómetrann í 15 mín.
Bennih

Vorum að klára stutta æfingu saman járnkarlarnir tveir (Ásgeirarnir) Birna, Labbi og nokkrir aðrir og ég. Létt sund að ströndum Kópavogs og til baka. Nú er svo komið að stefnir í umferðaröngþveiti í Nauthólsvík, svo margir eru farnir að leggja stund á sjóböð og sjósund.

laugardagur, 14. júní 2008

Fljótasti sjósundmaður Íslandssögunnar

Föstudaginn 13. júní synti Heimir úr Engey og inn í Reykjavíkurhöfn. Sund hans tók einungis 37 mín og 10 sek. Það ég best veit er þetta lang besti tími til þessa. Heimir er í fanta formi og til alls líklegur. Honum til félagsskapar var Dáni. Er ég nokkuð viss um að hann hefur einnig stórbætt gamla metið en það hverfur samt í skuggann svo fljótur var Heimir. Meðlimir úr Hjálparsveit Kópavogs voru með bát til taks og fylgdu þeim sundgörpum eftir.
Sjá má meira á http://sjosund.blogspot.com/ og myndir á http://picasaweb.google.com/heimirorn/Engey
Bennih

þriðjudagur, 10. júní 2008

Æfingar hjá Heimi

Hef mætt þrisvar til fjórum sinnum í viku í sjóinn seinustu 4 mánuði. Fór í Nauthólsvíkina í gær í fínu veðrið. Sjórinn 10 gráður og mikil fjara. Prufaði að synda í mjög þröngum skin keppnisgalla. Var ekki ánægður með hann. Fínn í styttri keppnisgreinum í sundlaug en ekki löngum sjósundum. Þrýstir of mikið á axlir og þar af leiðandi mikil hætta á nuddsárum. Held mig við Blueseventy PointZero gallan í framtíðinni. Fór út að miðjan vog og synnti á milli flagga og alveg út fyrir ysta bát(sjá mynd). Ég var sirka 40 mín að synda þessa 3065m. Ætla prufa nýju baugurnar á morgun. Heimir

Aldingarður

Í samráði við frábæran næringarfræðing hefur mataræðinu verið hnikað svolítið. Meira borðað af hollari mat. Heimilið er því eins og aldingarður og stórhætta á að vaxi á heimilismenn Íkornaskott. Minkað hefur neysla á uppáhaldsgrænmetinu mínu súkkulaðinu og í stað þess hefur komið hnetusamkrull og ávextir.
Bennih

1 km „Sundlaug”

Nú hefur þetta frábæra starfsfólk í Nauthólsvík sett niður fyrir okkur sjósundfólkið tvær baujur sem eru 500 metra frá veðurbaujunni í sína hvora áttina. Þar með erum við komin með mælda leið til að synda og ekkert að vanbunaði að taka tímann og keppa. Annars synnti ég í tæpan klukkutíma í gær og skrapp svo á sundæfingu í Kópavogi.
Bennih

sunnudagur, 8. júní 2008

Samstarfssamningur

Föstudaginn 6. júní undirrituðu Heimir og Benedikt, fyrir hönd Sjósundlandsliðs Íslands, samstarfsamning við Lyfju. Báðir aðilar hugsa sér gott til þessa samstarfs og vona að hann geti orðið til farsældar.

Samstarf hefur tekist við Landsbankann en ekki hefur verið gengið frá undirritun samstarfssamnings vegna anna.

Sex tíma sjósundsmartröð lokið

Til að mega synda Ermasundið verða menn að klára sex tíma prufusund í 16°C köldu vatni eða kaldara. Seinasta ár synti ég frá Nauthólsvík til Hafnafjarðar. Sjórinn er kaldari nú en hann var þá og það má ekki synda í öðru en sundskílunni, með eina sundhettu og eitt par að gleraugum. Til að fylla út í þessa skildu var ákveðið að synda í lóninu í Nauthól. Virtist vera ágætis hugmynd sem reyndist svo vera kvalafull lífsreynsla og mikil andleg þjálfun en takmörkuð sundþjálfun.
Tíu mínútur í níu var allt klárt og þá var byrjað í 11°c köldum sjó. Það var virkilega gott hitastig. Fyrsti hálftíminn gekk vel en eftir það hófst erfiðið. Þá voru pottarnir orðnir fullir og yfirfallið af þeim byrjað að renna út í Nauthól. Það skal tekið fram að þeir voru settir í gang fyrr en venjulega fyrir mig til að hita aðeins lónið. Það er svo yndislega gott starfsfólkið þarna niðurfrá og alltaf til í að hjálpa. Þá gerist það að sjórinn verður í taumum heitur og kaldur. Þeir sem synda í sjónum vita að þegar farið er út í sjó verður manni kalt sem venst svo aftur þegar skrokkurinn dofnar. Við svona tauma dofnar ekkert og alltaf er eins og verið sé að fara út í. Eftir 40 mín var líðanin verulega slæm og sú hugsun ein að hætta. Eftir einn og hálfan tíma kom Stefán Karl út í og það var virkilega gaman að sjá hann og það hélt manni lengur út í en þá var kuldinn orðin það mikill að ég gat varla talað skalf svo mikið. Mikið var gott á að fá félagskap. Eftir fjórar klukkustundir var sjórinn orðin heitur 16.3 °C en samt miklir kuldataumar.

Heimir bættist við og synti nokkrum sinnum með. Góðir félagar. Nú var farið að fjara og eins og að synda í 25 metra barnalaug. Hitinn að aukast og taumarnir að minnka. Síðustu tveir tímarnit voru eins og sundlaugardútl.
Fyrstu 3 tímana fékk ég næringu á klukkutíma fresti en svo á hálftíma eftir það. Um það sá að mestu Starfsmaður Ylstrandarinnar Anna Gunndís (Dunda) og kann ég henni bestu þakkir fyrir. Hún mætti einnig klukkustund fyrir vinnutíma sinn til að gera allt klárt fyrir mig. Hún hitamældi sjóinn á klukkutíma fresti. Heimir og konan mín sáu einnig um að fæða mig.
Eftir sex tíma í lóninu fór ég í sjóinn til að synda almennilega og var það frábært. Jafn hiti, rigning og smá öldugangur.

Mig langar að þakka öllum sem aðstoðuðu mig við þetta. Stefáni Karli, Heimi, konunni og þessu frábæra starfsfólki Ylstrandarinnar sem er alltaf til í að aðstoða og gera það sem er í þeirra valdi til að gera manni dvölina þarna niður frá sem skemmtilegasta.
Bennih

sunnudagur, 1. júní 2008

Æfingar

Ég hirði ekki um að telja upp styttri sundin sem ég syndi í miðri viku bæði í sundlaugum og í sjónum. En laugardaginn 24. maí sinnti ég í 5 tíma í Kópavogslauginni og gekk það ljómandi. Ég byrjaði á Rússa með 10 sek. 5,150 km og synti svo 500 og 500 til skiptis bringu og skrið. Án þess að stoppa. Þegar svona langt er synt gleymist (ruglast) að telja vegalengdina og því veit ég ekki hver hún var.
Laugardaginn 31. maí reyndi ég að endurtaka leikinn og synda 5 klukkutíma. Eftir svefnlausa viku, það er verið er að brjóta allan kjallarann hjá mér og ég vinn á næturnar, sef á daginn, þar sem ég hef æft vel þrátt fyrir svefnleysi þá var ég einfaldlega búinn á laugardaginn og gafst upp eftir 3 tíma. Eftir tveggja tíma svefn var haldið í Nauthólsv. og við Birna tókum einn bátahring á góðri ferð.
Sunnudaginn 1. júni, sjómannadaginn, skelltum við Ásgeir járnkarl (hennar Bibbu járnfrúar) okkur í brjáluðum öldugangi inn í botn að bensínstöðinni og yfir í Kópavoginn og svo í x inn á ylströndina um 3 km leið. Það er vart hægt að hugsa sé betri sundfélaga en Ásgeir hann er alltaf svo jákvæður og gefur manni ekki færi á neikvæðni eða svartsýni og rekur mann áfram. Þegar synt er langt hættir manni til að gleyma sér og fer að hugsa eitthvað allt annað en því sem skiptir máli þá hægir maður á sér. En ekki með Ásgeiri
Bennih