mánudagur, 31. ágúst 2009

Allt klárt fyrir Ermarsund 2009

Nú er allt orðið klappað og klárt fyrir Ermarsund 2009. Búið að ganga frá öllum pappírum og sexmenningar hafa staðist strangar læknisprufanir með prýði. Nú æfir liðið stíft og stillir saman strengi sína þessar seinustu vikurnar fyrir sundið mikla.

Stefnt verður á báðar leiðir, frá England til Frakklands og aftur til baka. Boðsundsveitin hefur fyrsta rétt dagana 11.09-18.09.

Ermarsundhópurinn ásamt ITR stóðu fyrir fjölmennasta hópsjósundi Íslandsögunar föstudaginn 21.ágúst þegar 164 syntu Skarfakletts-Viðeyjarsund. Tilefnið sundsins var að fagna gríðarlegri aukningu ástundun sjósunds, sjósundafrekum sumarsins (5 Eyjasund, Hríseyjar,Viðeyjar og Drangeyjarsundum) og síðan ekki síst að kveðja Ermarsundgarpana sem senn leggja á stað í Ermarsundið.

Ermarsundgarparnir eru 6 manna boðsundsveit reyndra sjósundmanna og kvenna úr Sundfélagi Hafnarfjarðar sem ætlar synda báðar leiðir eða um 90 km sund.  

Nokkrir minnispunktar um Ermarsundgarpana

  • Boðsundsveitin, samanstendur af 6 einstaklingum. Ein kona og 5 karlmenn. Heimir Örn Sveinsson, Hrafnkell Marinósson, Hilmar Hreinsson, Birna Jóhanna Ólafsdóttir, Björn Ásgeir Guðmundsson og Hálfdán Freyr Örnólfsson. Allir með mikla og víðtæka reynslu í sjósundi.
  • Í fyrra fór sveitin ásamt Benedikt Hjartarsyni, í leiðangur í að sigra Ermarsundið. Benni var með 3. og boðsundsveit 4. sundrétt. Benedikt kláraði sitt sund með stæl en boðsundsveit, sem ætlaði fram og til baka komst ekki af stað vegna veðurs.
  • Boðsundsveit (Icelandic Open Water Team) ætlar nú að klára verkefnið, fram og til baka. Það hefur tryggt sér 1. sundrétt dagana 11.09 til 18.09. Það eru góðar líkur á að þessum úrvalshópi takist ætlunarverk sitt og standi sigurreifir á Frakklands og Englandsströndum eftir um 90 km sund.
  • Heimasíða leiðangurins http://www.ermarsund.com/ sló rækilega í gegn í fyrra. Um 17 þúsund manns heimsóttu hana á meðan á sundinu stóð. Síðan var uppfærð á 30 mín fresti með fréttum,myndum og staðsetningu sundsins. Stefnt er af því endurtaka þetta.