fimmtudagur, 2. ágúst 2007

Ný sjósund blogsíða

Kominn er ný sjósund blogsíða sjosund.blogspot.com sem mun taka við af þessari síðu.

ermasund.blogspot.com mun vera áfram í notkun sem sögulegur vitnisburður og hugsanlegar Ermasundstilraunir í framtíðinni :)

mánudagur, 16. júlí 2007

Fjölmiðlaumfjöllun

Sundið vakti talsverða athygli heima á fróni. Hérna fyrir neðan er slóðir á öll fréttaskot RUV

Kvöldfréttir - Mánudaginn 09.07.2007

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338359/12

Kvöldfréttir - Þriðjudagur 10.07.2007 (Á meðan sundinu stóð)

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338360/6

10 fréttir - þriðjudagur 10.07.2007

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338120/1

Kvöldfréttir - Miðvikudagur 11.07.2007

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338361/11

laugardagur, 14. júlí 2007

Fleiri myndir

Sjá má fleiri myndir af Ermasundi Benedikts á vef Jóns Svavarsonar ljósmyndara

fimmtudagur, 12. júlí 2007

Heim á leið

Seinasti dagurinn okkar hér í smábænum Folkestone, rétt fyrir utan Dover, er eins og byrjun á enskri skáldsögu eftir Charles Dickens, þung ensk þoka yfir og rigningnarsuld. En það er fjarri því þetta lýsi hugarástandi Benedikts og aðstoðarmanna hans. Frábær mórall í hópnum. Mikið gert grín og sprellað. Í gær fórum út að borða með Jerry Wiens og fjölskyldu hans. Benedikt kynntist honum við komuna til Dover. Jerry komst yfir eftir 14 tíma sund. Þeir báru sig saman og það kom í ljós að skipstjóri hans hefði haft mun meiri metnað í að meta sjávarföll og koma honum yfir. T.d. fór hann aldrei á klósettið, pissaði í ílát við hliðina á stýrinu og hafði augað á Jerry allan tímann.
Núna bíðum við á Heathrow eftir fluginu til Íslands. Hvað framtíðin ber skauti sér vitum við ekki ennþá. Eitt sem við vitum er að hún svo björt að Benedikt keypti sér Porche sólgleraugu á flugvellinum.

Lendum kl. 23:10 samkvæmt áætlun. Mikið verður nú gott að koma heim og komast í íslenskan sjó og heitan pott...
Út að borða með Jerry og fjölskyldu

Benedikt með gjöf frá systur sinni
Benni bjartsýn og ánægður með nýju sólgleraugun

miðvikudagur, 11. júlí 2007

Myndir

Komin er myndasíða fyrir ævintýrið, slóðin er hér til hliðar undir hlekkir

Kærar þakkir og fyrirgefið

Kæru vinir,styrktaraðilar, minir frábæru félagar sem voru í sundáhöfninni og allir sem fylgdust með Emmusundinu okkar yfir Ermasund.
Ég bið ykkur innilega afsökunar á því að hafa brugðist ykkur. Eftir að ég hef fengið útprentun á leiðinni sem við fórum og aðrar upplýsingar þá mun ég skýra nánar frá ferðinni. En alls synti ég 45 km á tæplega 15 tímum þar af einn og hálfan tíma þar sem ég komst nokkra metra áfram en marga kílómetra til hliðar.

Eftir að hafa rætt saman hér eftir sundið erum við sammála um að skipulag skipstjórans hafi farið íllilega úr skorðum. Hann var til að mynda allt of seinn að koma bátnum af stað (ekki samkvæmt áætlun) þannig misstum við af því að fara á liggjandanum (tíminn á milli flóðs og fjöru). Hann vissi ekki hvernig flóðataflan var fyrir Calais. Reiknaði þannig vitlausan tíma til að venda, breyta stefnu inn til Frakklands. Þá var skollið á hörku útflæði. Í gegnum hana fer enginn eftir 13 1/2 tíma í sjónum á miklum sjósundshraða.
Sundhraðinn frá Dover var mikill og mér leið afbragðs vel alla leið að úflæðisveggnum. Hefðum við farið á réttum tíma af stað hefði útflæðið ekki verið byrjað. Við þá sloppið inn á lygnu og klárað dæmið.
Eftir að hafa synt í einn og hálfan klukkutíma á móti þessum straumi eins og eg væri í 100m sprettsundi í keppni og bara færst fram um nokkra metra. Varð ég veikur af ofreynslu fékk hita og hætti sundi. Þar lá minn veikleiki. Ég hefði getað beðið í nokkra klukkutíma og haldið mér á svipuðum stað með ögn minni áreynslu og farið inn þegar um hægðist.
En ég hætti á "dauða" mílunni eins og hún er kölluð Því þar hætta flestir þeir sem hægsyndir eru. En tímasetningin var röng fyrir okkur.

Hér höfðum við fjóra síma á leiðinni og það er sannast sagna ótrúlegt hvað margir hringdu og sendu SMS til að spyrjast fyrir um gang mála og meira segja spyrjast fyrir um það hvort hægt væri að styrkja þetta sund. Takk æðislega, þið eruð frábær!

Eftir sundið hringdi ég í konu mína og sagði hún mér að hún hefði verið að velta fyrir sér hvernig hún gæti verðlaunað mig fyrir þetta sund. Sagðist vita hvað mér þætti gott að vera í hlýralausum bol. þannig að hún ætlar að gefa mér svoleiðis, þeir væru nefnilega "Ermalausir". Þetta Emmusund verður þá að kallast stutt Ermasund.

Nú er röðin komin að einhverjum öðrum að reyna. Ég skal aðstoða þann einstakling með öllum ráðum.

Það sem viðkomandi þarf að hafa til brunns að bera er að geta synt 100m sund á einni og hálfri mínútu sem er ekkert sundafrek og geta synt þrjá kílómetra á klukkustund í fjóra tíma. Hægt er að ná þessu á einum vetri fyrir góðan íþróttamann. Það hefur sýnt sig að þeir sem ekki geta þetta eiga engan möguleika.

Enn og aftur takk fyrir allir sem sýndu þessu Emmusundi áhuga á einn og annan hátt og fyrirgefið að ég brást ykkur.
Ykkar einlægur
Benedikt Hjartarson
reiður, sár, svekktur, og syfjaður.

þriðjudagur, 10. júlí 2007

Kæru vinir, vandamenn og aðrir sem hafa fylgst með þessum ótrúlega degi.

Kæru vinir, vandamenn og aðrir sem hafa fylgst með þessum ótrúlega degi.

Mér þykir ótrúlega leiðinlegt að tilkynna ykkur það að þetta hafðist ekki í þetta skiptið.

Hann var mjög hrakinn og þreyttur og rak mikið til hliðar. En hann var 2,4 mílur frá þegar hann hætti.

Benedikt mun tjá sig um sundið á eftir.

Það munar svo litlu

Smám saman færist Benedikt nær en rekur mjög hratt til hliðar. Benedikt er orðinn frekar hrakinn en heldur áfram. Það er komið myrkur.

FARIÐ ÖLDUR EINHVERT ANNAÐ!

2 km í öruggt svæði en mikið rek

Stór ferja að fara framhjá sem truflar lítillega því öldur fara í sömu átt og straumarnir. Þeir eru aðeins 2 km frá öruggu svæði. Það er svæði í sjónum þar sem grynnra er, minni alda og nógu innarlega til að láta hliðarstrauminn bera sig í land.

KOMA SVO BENNI!

ubbosi

Blysin og gleraugun samkvæmt reglum er kominn á en tefja fyrir. Þetta er að verða tæpt vegna þess að þá rekur hratt.

Austan fall er að bera hann út og ef það gerist er þetta búið.

Benedikt berst áfram af ótrúlegri hörku. Þeir sjá örugga svæðið.

KOMA SVO SENDIÐ GÓÐA STRAUMA!

Eltu góða veðrið...

Benedikt heldur áfram að koma nær örugga svæðinu, en sterkur hliðar straumur og áfestingar blysa (glóstanga,skilda er að hafa blis á sér þegar það fer að myrkva) tefja fyrir

Krítískt augnablik

Mjög krítískt augnablik núna. Stefán Karl komin aftur útí til að koma Benna inn fyrir öruggt svæði sem er eftir tvær mílur.

Emmusund

Eftir samtal við Ellu gef ég upp reikning á nafni Gísla, bróður Benna. Ella og Benni afþakka beinan fjárstuðning við sundið en vilja gjarnan styrkja góða hluti á Barnaspítala Hringsins í minningu Emmu Katrínar. Þeir sem vilja leggja slíku framtaki lið leggi inn á:
0537-14-651006, kt. 1504603369.
Það var ekki þetta sem við höfðum í huga þegar ég sendi inn comment áðan. Við, foreldrar Emmu Katrínar, erum hins vegar auðvitað afar þakklát fyrir að Benni og Ella vilji beina stuðningi í þennan farveg og stolt af því að geta tengt saman hetjudáð Benna og minningu Emmu á þennan hátt.
Með góðri kveðju, Gréta.

Koma svo áfram!

Ströndin nálgast!
Fallið kemur fyrr en skipstjóri átti von á. Þeir lenda líklega aðeins utar við Sangatte.

KOMA SVO ÁFRAM ÉG VEIT ÞIÐ GETIÐ ÞETTA :D

Strákarnir okkar

klukkan 18 á staðartíma er hann búinn að vera 10 klukkutíma og 40 mín. í sjónum. 35 km eru búnir sem er eins og bein lína yfir. Hann er búinn að halda meðalhraða 3,4 km á klukkustund seinustu 2 tímana.
Þeir munu koma í land til austurs við wissant.
Benni brosti allan hringinn þegar bátsmenn hans sýndu honum íslenska fánann.
Þeir sögðu að hann ætti sirka 7-8 km eftir sem gera um 3 klukkutíma sökum öldugangs. Hann þarf nú að gefa í til að ná tanganum.

Nú þurfa allir íslendingar nær og fjær að hugsa til hans og bátsmannana (þetta kom frá bátsstrákunum)

Gangi ykkur vel strákar, ég veit að þið getið þetta, við erum öll að fara á límingunum hérna heima :D

32 km komnir

komnir eru 32 km eftir 10 klukkustunda sund. Benni vinnur hart í að yfirvinna strauma og er að takast það brosandi. Er á bringursundi til að halda betri stefnu. Sjóhiti er 16,5 gráður.

Traustur vinur getur gert kraftaverk.

Stefán Karl (sundþjálfarinn)er farinn útí til að gefa Benna félagsskap (snilld :D).
28 km komnir og 3,3 km er meðalhraði á klukkustund. Þeir færast vestur vegna vesturfallsins. Eftir 3 tíma fara þeir í austurfallið til að ná meðflóðinu í land.

France here I come

Benedikt fór yfir Frönsku landamærinn (um 2 leitið á íslenskum tíma). Benedikt fékk að vita það með töflu og hann svara ,,strákar, gleymduð þið nokkuð passanum?" :D Hann er nú aftur kominn hægra meginn við bátinn :D

Á bringusundi


Benedikt syndir nú bringusund til að brjóta upp sundið og teygja á öxlunum. Fer aftur á skriðið eftir 10 mín þegar hann þarf að gefa aðeins í vegna strauma.
Búinn að synda í 6 klst 45 mín. Komnir 20,5 km. Meðalhraði 3,3. Ennþá sól og gott veður

Og það var Benni og það var Benni ó le ó le ó leóleóle


Búinn að synda 5 klukkustundir og 40 mín. Kominn 17,5 km meðalhraði er 3,5 km á klukkustund. Tæpur helmingur eftir.
Hann er búin að færa sig frá hægri hlið bátsins yfir á vinstri til að skýla honum fyrir öldunum. Komin er sól og minnkandi öldugangur.
Eftir um 45 mín mun hann synda bringusund.

Bjartsýni


3 klst, 45 min og 14 km komnir. Meðalhraði er 4 km á klukkustund. Matargjafir ganga hratt og örugglega. Æfingar aðstoðarmanna og Benna í Skerjafirði eru að skila sér. Aðeins meiri vindur er núna og meiri öldugangur vegna skipaumferðar. Skipstjóra og áhöfn líst vel á þetta, komast sennilega á pöbbinn :D

Benni á vini :D

Benni eignaðist fullt af vinum hérna úti enda partur af undirbuningi að kynnast og spjalla við reynslumenn. Fær nú baráttukveðjur frá mörgum þeirra. Skrifuð á upplýsingartöflu þar á meðal frá Nick sem átti afmæli í gær eins og Benni (segir einn af fylgdarmönnum). Aðeins meiri öldugangur er núna og enþá frekar skýað, en allt í góðum málum hjá þeim.
Fleiri upplýsingar á eftir :D

Sukkulaði i höfn!

Benedikt heldur stöðugu tempói, löng og góð skriðssundstök. 3 matargjöf innihélt mikilvægt súkkulaði og var Benedikt að vonum kátur með það og brosti allann hringinn. Hann er kominn 7,5 km á 2 klst og 15 mín af 35-40 km. Áðan kom smá rigning en birti aftur til núna. Hægur andvari.

Stöðugt tempo

Gott sund hjá Benedikt og heldur stöðugu tempói. Þeir eru komnir 3,5 km af 35 km ( bein lína, gera má ráð fyrir lengri vegalengd). Eftir 1 klst og 20 mín sund. Hann er búinn að fá matargjöf 2. Veðrið er fínt, smá skýað, sjórinn er fínn líka en örlítill öldugangur.

Er að synda

Meira en 45 mín, núna eru síðan Benedikt lagði að stað og er hann búinn að synda 1 mílu (aðeins meira). Fyrsta matargjöfinn er búin sem var orkudrykkur og gekk hún vel. Allt er í mjög góðu hjá Benna og í bátnum virtist vera mjög góður mórall hjá strákunum.

Strákar við sem erum á landi sendum ykkur baráttukveðjur, góða ferð :D
kv. Thelma

Smurning

Nú er verið koma Benedikti í sundskýluna og smurja á hann sólaráburð.



Komnir í bátinn



Við erum komnir í bátinn og erum lagðir á stað. kl er 06:37 á staðartíma. Veðrið er frábært og Benedikt tilbúinn í slaginn. Internetsamband verður risjótt. Við nálgumst Shakespeare Beach...

mánudagur, 9. júlí 2007

Tilbúnir í bátana kl 06:00

Þá er undirbúningi nánast lokið og ekkert að gera annað en að drífa sig í háttinn því það verður farið snemma á stað á morgun. Við munum mæta kl 06:00 niður á höfn þar sem skipstjóri okkar hann Eddy mun sigla með okkur á bátnum sínum Anastasia að Shakespeare Beach sem er 2 km frá Dover. Þar mun Benedikt hefja sundið langþráða.

Veðurspáinn er mjög góð beggja megin Ermasundsins.

Frakkland - Calasis http://www.bbc.co.uk/weather/5day.shtml?world=4158

England - Dover http://www.bbc.co.uk/weather/5day.shtml?id=1549

Við munu reyna, ef tæknin leyfir að uppfæra þessa síðu á meðan sundinu stendur með myndum og upplýsingum á 30 mín - 60 mín fresti.

Takk fyrir frábærar athugasemdir (comments) og kær kveðja til allra frá hópnum og afmælisbarninu Benedikti sem er lagstur til svefns :)

Myndir frá undirbúningi

Hópurinn er nú í Dover og undirbúningurinn stendur sem hæst fyrir sundið á morgun. Hér eru nokkrar glænýjar myndir:
Benedikt vakinn á afmælisdaginn
Heimir og Benedikt kíkja á veðurspána
Heimir teygjir á Benedikti
Ingþór fer yfir tossalistann
Partur af búnaðinum sem fylgir með
Benedikt ræðir við móður Ermasundsins.
Benni ræður við Eddy, skipstjóra fylgdarbátsins.

Stóri Emmudagurinn !


Nú er ákveðið að við förum í nótt til Frakklands. Við gætum ef vel gengur verið með fyrsta íslendinginn til að synda Ermina. Við höfum beðið nokkra daga tilbúnir og æft. Nú er því lokið. Eftir 15000 mínútur í sjó og laugum, tvisvar sinnum tvo tíma á viku í fimleikum þá er komið að þvi.

Hópurinn samanstendur af einmunaliði sem hver um sig hefur sínu hlutverki að gegna.
Reynsluboltinn Ingþór Bjarnason sálfræðingur, pólfari, göngugarpur og leiðsögumaður. Hann mun hafa yfirumsjón með næringunni og samskiptum við aðila utan leiðangurs.
Stefán Karl Sævarsson verkfræðingur, sundþjálfari, leiðsögumaður og kajakræðari með meiru. Hann sér um sundástand gefur skipanir um stefnu og fylgist með sundmanni.
Heimir Örn Sveinsson, tölvufræðingur, sjósundkappi, og áhugakvikmyndamaður. Hann sér um fjarskiptamál og ætlar að taka upp eitthvað af ferðinni.
Síðastur er svo Benedikt Hjartarson sem hefur notalegasta hlutverkið það er að liggja endilangur yfir til Frakklands. Aumingja hinir sem þurfa að hoppa og skoppa á korktappa.

Við höfum gert allt sem er í okkar valdi og nú er þetta ekki lengur í okkar höndum.
Spáin er góð og vonandi fáum við jafn gott veður og var í gær.
Við viljum að endingu þakka öllum sem gerðu þessa ferð mögulega. Til að gleyma engum tiltek ég ekki neinn sérstakan núna á þessari hraðferð.
Við erum staðráðnir í að standa okkur!
Benni


sunnudagur, 8. júlí 2007

Benni og bomban

Besti dagurinn sem komið hefur í Dover. Þvílikur dagur! Rétti tíminn til að setja met yfir Ermasund í hraða segja þeir sem til þekkja hér. Seigfljótandi öldur í rétta átt og golan einnig. Hitastig er með því hæsta bæði í sjó og andrúmslofti. Hiti í sjónum í Dover er 17° C og hitnar sjórinn eftir því sem nær dregur Frakklandi. Við gerðum okkur vonir um að komast af stað um fimmleytið í dag en báturinn var enn upptekin. Við stefnum á þriðjudaginn og vonumst til að fá gott veður þá. Við æfðum í dag og skoðuðum Dover. Á eftir gengum við um Folkestone og sáum Spitfire herflugvélar fljúga. Þegar við komum aftur að hótelinu var allt lokað. Sérsveitarmenn um allt, löggan, slökkviliðið og allt tiltækt lið. Þá hafði einhver sent inn sprengjuhótun og grunsamlegur pakki fannst á hótelinu. Allt vitlaust.
Nú um skeið hefur legið niðri möguleiki á að setja inn athugarsemdir nú er það komið í lag svo endilega setja eitthvað inn.
Benni

laugardagur, 7. júlí 2007

Beðið átekta !

Þá er ég sjálfur kominn í tölvusamband. Dagurinn í dag hefur einkennst af bið og samtölum við toppana í sundsambandinu hér. Þannig er að ég á annan sundrétt og nafni minn þann fyrsta.

Skipstjórinn sagði við mig í dag að nafni verði að fá fyrsta flokks sundskilyrði annars yrði ekki farið út með hann. Það hafa verið gerðar nokkrar tilraunir í dag til þess en aldrei verið nægjanlega góð skilyrði. Á meðan bíð ég og get ekkert annað. Reyndar hef ég fylgst með út um hótelgluggann og horft til Frakklands. Færið verið hið ákjósanlegasta og ég oft synnt í miklu verra veðri og meiri sjó. Ég hefði farið !

Nafni á að reyna klukkan 4 í nótt. Sjórinn er svo sléttur að það verður ekki betra. Sjaldan séð sléttari sjó og það alla leið til Frakklands. Spáin er alveg frábær fyrir morgundaginn. Ég er að gera mér vonir um að fara á næsta flóði eftir kl. 4 í nótt, það er klukkan kl. 17. Spáin fram eftir vikunni er nefnilega ömurleg.
Annars er hér frábært andrúmsloft. Áhöfnin mín er það besta sem
hægt er að hugsa sér. Allir svaka hressir. Mikið fíflast og hlegið. Borðað úr hófi og synt á milli. Við ræðum mikið við útlendingana sem hér eru og berum saman sundáformin. Ég bið að heilsa öllum og vil enn ýtreka þakklæti til allra sem hafa stutt okkur á einn
eða annan hátt.
Benni

föstudagur, 6. júlí 2007

Fagnaðarfundir á Heathrow

Heimir, Ingþór og Stefán hittu Benedikt á Heathrow í dag. Síðan var ferðinni
haldið á bílaleigubílum til Dover. Til að byrja með gekk brösulega að aka réttu megin en eftir nokkrar æfingar á hringtorgum voru menn fljótir að ná áttum. Í Dover hitti Benedikt nafna sinn Lafleur en hann er einnig að reyna við Ermasundið http://www.ermasund.is/.
Hópurinn gistir á Hotel Burstin í Folkestone sem er bær rétt utan við Dover. Á morgun hittum við skipstjóran á bátnum og fleiri toppa og þá kemur betur í ljós hvenær farið verður í sundið mikla.

fimmtudagur, 5. júlí 2007

Mogginn fylgist með mataræfingum

Í seinustu viku æfði Benedikt matargjafir ásamt aðstoðarmönnum sínum. Morgunblaðið var með á einni æfingunni. http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1152828

Benedikt kominn til Dover

Benedikt er nú í Dover þar sem hann undirbýr sig fyrir sundið mikla. Hann fór út 29. júní en hann vonast til að reyna við sundið næstu helgi (6. júlí - 8. júlí).

Samkvæmt Benedikti er hann í fínu formi og er meira en tilbúinn í þrekvirkið.

"Hér hjálpast allir að þar sem fólk frá öllum heimshornum er komið til að reyna við sundið. Ég hef kynnst fullt af fólk og strax á fyrsta degi fann ég mér sundfélaga frá San Francisco og Ungverjalandi,,

Benedikt tekur með sér þrjá eftirfarandi aðstoðarmenn:

Ingþór Bjarnason, Sálfræðingur, gönguskíðagarpur og pólfari. Hefur farið yfir Grænlandsjökull, Suðurpólinn og hálfa leiðina á Norðurpólinn en og eins frægt er.

Stefán Karl Sævarsson, Bs Verkfræðingur, sundkappi og þjálfari.

Heimir Örn Sveinsson Tölvufræðingur og fyrrv. keppnismaður í sundi og núverandi sjósundkappi.

Þeir hafa hjálpað Benedikti andlega og líkamlega að undirbúa sundið og gegna veigamiklu hlutverki í að aðstoða Benedikt á meðan sundinu stendur. T.d. sjá þeir um að koma orkudrykkjum til Benedikts á 20 mín fresti og það er gríðalega mikilvægt að það ferli haldist jafnt og þétt.
Aðstoðarmennirnir fara út til Benedikts á föstudaginn, 6. júlí (í dag) og stefnt er á synda á sunnudaginn þar sem veðurspáin er nokkuð góð fyrir þann dag. http://www.bbc.co.uk/weather/5day.shtml?id=1549

Eins og gefur að skilja þá er þetta ævintýri ekki ókeypis. Eftirfarandi velunnara og fyrirtæki styrkja Ermasund Benedikts:

Flugleiðir http://www.icelandair.is/ ,Landsvirkjun http://www.lv.is/ ,BjörnsBakarí ,Sundsamband Íslands http://www.sundsamband.is/ , Dúvó Ráðgjöf, Speedo á Íslandi og félagar úr fimleikadeild Ármanns

Benedikt vill þakka þessum aðilum góðan stuðning.

miðvikudagur, 27. júní 2007

Fyrstur Íslendinga !

Vikuna 7. til 14. júlí næstkomandi mun ég leggja í sund yfir Ermasundið. Synt verður frá Dover á Englandi og þvert yfir sundið til Frakklands. Skemmsta leið yfir sundið er 31-35 km loftlína en búast má við að sundið verði að minnsta kosti 40- 45 km.Engum Íslendingi hefur tekist að synda þessa leið en tveir hafa þegar reynt í nokkrum tilraunum. Frá 1875 þegar kapteinn Web synti þessa leið fyrstur manna hafa um 4000 manns reynt en aðeins um 700 tekist að ljúka sundinu löglega, en um það gilda strangar reglur. Seinustu árin hafa 15-20 manns árlega lokið sundinu löglega. Til að mega synda þarf að undirgangast strangar kröfur um andlegt og líkamlegt atgervi taka þarf til dæmis hjartalínurit og skila læknisvottorði sem ég hef þegar gert. Einnig þarf ég að standast 6 tíma sund í 16° C heitu vatni (hiti í sundlaug er 28° C).

Hvað fær mig til að halda að ég komist yfir? Frá því að hugmyndin um að ég synti yfir kviknaði í lok september í fyrra hef ég æft af kappi. Stundað sundæfingar með sunddeild Breiðabliks þrisvar í viku og synt töluvert þess utan eða í 7954 mínútur í laugum og 638 mín í sjó og jökulvatni. Ég æfi einnig fimleika tvisvar í viku tvo tíma í senn með fimleikadeild Ármanns. Hef ég gert það með hléum frá 1985. Í vetur hef ég líka lagt töluverða áherslu á að lyfta lóðum á fimleikaæfingum.
Sumarið 2005 varð ég Íslandsmeistari í fimm greinum frjálsra íþrótta fyrir minn aldurshóp. Sleggjukasti, lóðakasti, spjótkasti, kringlukasti og 800m hlaupi. Mín íþrótt er samt skíði.

Á þessari síðu verður hægt að fylgjast með aðdraganda og sundinu sjálfu. Stefnt er af því uppfæra síðuna á 1klst fresti á meðan sundinu stendur.

Þar sem ég verð ekki með tölvu út í Bretlandi þá mun sundfélagi og aðstoðarmaður minn Heimir Örn Sveinsson uppfæra síðuna mína.