þriðjudagur, 15. september 2009

Ermarsund 2009 er lokið. Orustan er töpuð en stríðið er ekki búið

Í gærkvöldi áttum við góðar stundir með þeim Evelyn og David á Varne Rigde. Bjössi eða Ísbjörnin eins og við köllum hann galdraði fram dýrindis kvöldverð handa okkur öllum. Evelyn og David eru orðnir góðir vinir okkar og næsta ferð þeirra verður til Íslands.
Bjössa kokkar og Evelyn fylgist með.

Í morgun hringdi Andy skipstjóri og tjáði okkur að ekkert verður af kraftaverkinu.  Ekkert veðurgat verður fyrr en fyrsta lagi eftir helgi og þá verður fresturinn okkar löngu búinn. 

Eftir fréttirnar var pakkað saman og við flugum heim í dag. 

Orustan er töpuð en stríðið er ekki búið. Við munum reyna aftur. 

Við viljum þakka öllum styrktaraðilum kærlega fyrir stuðningin.  Vinum og kunningum þökkum við fyrir hlýlegar kveðjur á blogsíðunni.

mánudagur, 14. september 2009

Við þurfum kraftaverk


Það er orðið nokkuð ljóst að við syndum ekki Ermarsundið í ár.  Við áttum fund með Andy King í morgun og hann sagði að við þurfum meira en veður-kraftaverk til að klára þetta fyrir föstudaginn en þá líkur rétti okkar.

Skipstjórinn ræður öllu enda er það vel skiljanlegt.  Það hafa orðið dauðsföll af því að fólk er að fara í tvísýnu. Ein boðsundsveit fór út í tvísýnu veðri og eftir 3 klst vildi skipstjórinn hætta. Meðlimir boðsundsveitar voru ekki sáttir og rifust við skipstjórann. Á meðan gleymdu þau að fylgjast með þeim sem var að synda og týndu honum. Hann hefur ekki fundist síðan. Eftir þetta voru reglurnar gerðar skýrari með að skipstjórinn hefur lokaorðið. Annað dæmi var einstaklingssundmaður sem lennti stórri öldu og fannst ekki eftir það.

Þótt það virðist vera skaplegt veður hér í Dover á íslenskan mælinkvarða þá er bræla út á Ermarsundinu.  Þá er ég ekki að tala um brælu sem miðast við sjósund heldur 2m +, ölduhæð sem er telst vera bræla fyrir meðalstórar trillur.

Enginn hefur synt síðan á þriðjudaginn var. Gestgjafar okkar, Evelyn og David segja að þetta sé versta sumar í þau 13 ár sem þau hafa rekið þennan gististað. Hérna bíður fólk eftir að veðrið skáni en margir hafa gefist upp og farið heim. Við höfum frétt af einum sem fór heim til Ástralíu en ætlar að koma aftur í næsta mánuði. Engin kreppa þar!

Kannski gerist kraftaverkið í nótt ...

Rigning og rok !

Rigning og rok kl 08:30 í morgun
Veðurspáin sem var nógu slæm fyrir, hefur versnað.  Vindur 8-11 m/s, 14°-16° rok og rigning með sólarglætu á milli.  Þetta þýðir á Ermarsundinu 1,5 - 3,0 m ölduhæð gjörsamlega ófært til að synda. Í morgun voru sundmenn í sama sundhólfi og við, frá Írlandi, Bandaríkjunum og Bretlandi að kveðja þau Evelyn og David hjá Varne Rigde.
Sjá veðurspá á yr.no og vindaspá á windguru
 Höldum fund með Andy King eftir 2 klst.

sunnudagur, 13. september 2009

Veik von

Fallegt sjósundfólk
Í morgun gerðum við okkur vonir um að veðurgat væri að myndast á þriðjudaginn en svo virðist sem veðurguðirnir séu okkur ekki hliðhollir.  Við töluðum við Andy í King í dag og hann var ekki bjartsýnn fyrir þriðjudaginn og alla næstu viku en sundvikan okkar endar á föstudaginn og Andy er fullbókaður næstu vikurnar.  Norðaustan strengurinn mun halda áfram að gera sjóinn á Ermarsundinu að þvottavél; 1,5 til 2 m ölduhæð og 10-14 m/s, fram að föstudeginum.  Agjörlega glórulaust að reyna við það hvort sem það er ein leið eða tvær.
Hópurinn á æfingu í gær

Við erum í sömu sporum og allir aðrir sundmenn sem bíða eftir góðu veðri.  Írarnir, sem eru hér með okkur á Varne Ridge töluðu um hvort það þurfi að fara fórna geit eða jafnvel einhverju stærra fyrir veðurguðina :)
Hópurinn við Varne Rigde
Við höldum í vonina því veðurspár eru tvísýnar og það þarf tiltölulega lítið til að gera aðstæður mun betri.  Á morgun verðum við aftur í sambandi við Andy King skipstjóra og þá kemst þetta nokkuð veginn á hreint.

laugardagur, 12. september 2009

Birna týnd, skítið á kokkinn,Benni á safni, grillveisla og Dan hin ótrúlegi

Strákarnir týndir !
Það rættist lítið úr óskum okkar með að veðurhæðin færðist eitthvað til í dag.  Því var farið í næsta bæ til að dreifa huganum í verslunamiðstöð.  Þar komst Mamma ferðarinnar,Birna, í verslunavímu og gleymdi eitt augnablik að sjá um strákana.  Þeir ráfuðum út í buskann og týndust en fundust fljótlega aftur.
Birna kemur upp úr úfnum sjónum (ýtið á mynd á til að stækka)

Þegar strákarnir voru búnir að ná sér var farið í höfnina í Dover og tekinn æfing.  "Mamman" var lengst, 1 klst og 15 mín.  Á meðan Birna djöflaðist í úfnum sjónum slökuðu strákarnir á eftir sundið.  Mávarnir virtust eitthvað vera óánægðir með okkur strákana því þeir tóku sig til skítu beint á skallann á Bjössa !

Sjórinn hefur verið úfinn og leiðinlegur í höfninni.
Eftir sundið tékkuðum við á sögusafninu í Dover.  Eitt hornið í safninu var tileinkað Ermarsundinu og hetjum þess og þ.á.m. yfirlit yfir árangur síðasta árs (2008) og á listanum var elsti sundmaðurinn (51), Benni okkar Hjartarson.
Benni á listanum (Ýtið á til að stækka )
Um kvöldið var okkur boðið í matarboð sem þau Evelyn og David héldu fyrir sundmenn.  Þar hittum við ansi skrautlegan og ótrúlegan Breta að nafni Dan Martin.  Hann stefnir á heimsþríþraut !  Þríþrautin gengur út á það að synda yfir Atlantshafið frá New York, hlaupa til Moskvu og hjóla síðan restina yfir Síberíu og til New York !  Þetta hefur aldrei verið reynt en hann ætlar að byrja 8. maí á næsta ári.
 Bjössi með Dan Martin
Heimir og Bjössi áttu gott spjall við kappann og meðal annars sagði hann frá hjólaferð frá Suður Kóreu til Cape Town í Suður Afríku fyrir 4 árum síðan.  Hann lenti í ótrúlegustu ævintýrum á leiðinni enda hjólaði hann í gegnum hættulegustu ríki heimsins, Afganistan, Írak og nokkur vafasöm Afríkuríki. Í Eþíópíu varð honum á að hjóla á konu og stórslasa hana og sjálfan sig.  Eftir slysið var honum fleygt í fangelsi án læknishjálpar og dæmdur þar til dauða !  Á síðustu stundu bjargaði Breska Sendiráðið honum og hann fékk læknishjálp í kjölfarið.
 Á spjalli við aðra Ermarsundgarpar
Það var mikið talað um veður í veislunni og margir búnir að bíða ansi lengi eftir góðu sund veðri.  Margir búnir að leggja mikið á sig og sáu fram á að þurfa að hætta við sundið vegna dyttjóttra veðurguða.

föstudagur, 11. september 2009

Fyrsti dagur í sundrétti. Fundur með Andy

Andy ekki bjarsýnn á helgina
Þessi fyrsti dagur í sundrétti (11. sept-18. sept) byrjaði með góðum fundi með Andy King.  Hann talaði um það væri mjög lítil von um helgina og mánudagurinn væri tæpur.  Þó þetta líti þokkalega út Englandsmegin þá er mikil bræla Frakklandsmegin.   Svo virðist sem veðurhæðinn fyrir ofan England ætli að halda norðan strengnum niður Ermarsundið yfir helgina.

September er vinsæll mánuður hjá Ermarsundgörpum og það er mikið af sundmönnum sem eru í sama sundhólfi og við. Eins og aðrir sundmenn, hvort sem þeir eru í boðsundi eða einstaklings, þá lítur út fyrir að við þurfum að bíða eitthvað eftir því að takast á við Ermarsundið.

Eftir hádegisæfingu skruppum við í bíltúr um nágrenni Dover.  Síðan var verslað í matinn og Bjössi galdraði fram fimm stjörnu hlaðborð.
 

Að lokum má benda á að Heiðar Snyrtir heldur daðurnámskeið í VR þessa dagana.  Mælum sterklega með því :)