miðvikudagur, 27. júní 2007

Fyrstur Íslendinga !

Vikuna 7. til 14. júlí næstkomandi mun ég leggja í sund yfir Ermasundið. Synt verður frá Dover á Englandi og þvert yfir sundið til Frakklands. Skemmsta leið yfir sundið er 31-35 km loftlína en búast má við að sundið verði að minnsta kosti 40- 45 km.Engum Íslendingi hefur tekist að synda þessa leið en tveir hafa þegar reynt í nokkrum tilraunum. Frá 1875 þegar kapteinn Web synti þessa leið fyrstur manna hafa um 4000 manns reynt en aðeins um 700 tekist að ljúka sundinu löglega, en um það gilda strangar reglur. Seinustu árin hafa 15-20 manns árlega lokið sundinu löglega. Til að mega synda þarf að undirgangast strangar kröfur um andlegt og líkamlegt atgervi taka þarf til dæmis hjartalínurit og skila læknisvottorði sem ég hef þegar gert. Einnig þarf ég að standast 6 tíma sund í 16° C heitu vatni (hiti í sundlaug er 28° C).

Hvað fær mig til að halda að ég komist yfir? Frá því að hugmyndin um að ég synti yfir kviknaði í lok september í fyrra hef ég æft af kappi. Stundað sundæfingar með sunddeild Breiðabliks þrisvar í viku og synt töluvert þess utan eða í 7954 mínútur í laugum og 638 mín í sjó og jökulvatni. Ég æfi einnig fimleika tvisvar í viku tvo tíma í senn með fimleikadeild Ármanns. Hef ég gert það með hléum frá 1985. Í vetur hef ég líka lagt töluverða áherslu á að lyfta lóðum á fimleikaæfingum.
Sumarið 2005 varð ég Íslandsmeistari í fimm greinum frjálsra íþrótta fyrir minn aldurshóp. Sleggjukasti, lóðakasti, spjótkasti, kringlukasti og 800m hlaupi. Mín íþrótt er samt skíði.

Á þessari síðu verður hægt að fylgjast með aðdraganda og sundinu sjálfu. Stefnt er af því uppfæra síðuna á 1klst fresti á meðan sundinu stendur.

Þar sem ég verð ekki með tölvu út í Bretlandi þá mun sundfélagi og aðstoðarmaður minn Heimir Örn Sveinsson uppfæra síðuna mína.