mánudagur, 12. maí 2008

Yndislegur dagur

Hófst með því að prufukeyra nýju aðstöðuna í Kópavogi (sundlaugina). Búningsklefarnir mjög góðir. Ekki eins og er í tísku núna svo litlir skápar að ekki er hægt að koma fötunum fyrir. Frábærar setlaugar og leiktæki. Reyndar hélt ég að sundlaugin yrði fullorðins en í staðinn er þetta ein barnalaugin enn. 25 m.
Ég synti Rússabana í gömlu lauginni upp á 5,150 bætti svo tveimur kílómetrum við með blandi af 500m bringu og 500m af skriði til skiptis. Prófaði svo innilaugina og synti nokkur hundruð þar.
Við Heimir skelltum okkur svo í sjóinn seinnipartinn og syntum í kringum bátana í Nauthól.

Fyrsta langsundið í sjónum

Þó æfingar hafi staðið í allan vetur bæði í sundlaugum, sjónum, fimleikasalnum og á grindinni hér heima þá er fyrst núna sem alvöruæfingar hefjast. Fyrsta langsundinu í sjónum lokið. Synti frá rampnum í Nauthólsvík og að bensínstöðinni í Fossvogi. Vegalengdin er 1.2 km aðra leið þannig að syndið var 2,4 km. Brjálaður öldugangur og mikill barningur að komast inn að bensínstöð enda tók það 38 mínútur og töluverður sjór skall á andlitinu og upp í mig. Ég hlakkaði alla leiðina inn eftir til að fara til baka og hafa öldurnar í rassinn. Það var skrítið og öldurnar hentu löppunum oft upp í loftið og stungu mér á kaf með andlitið. Nú man ég hvað var svo gaman við að synda í sjónum. Hitastigið frá 8-9 °C. Eftir volkið í sjónum skellti ég mér í sundlaugina og synti rólega 1 km. þá eru bara eftir teyja á öxlunum en það verður gert í kvöld.