laugardagur, 26. júlí 2008

föstudagur, 25. júlí 2008

Leið Benna yfir Ermarsund

Hér fyrir ofan er leiðrétt mynd (klikkið á til að stækka) af leiðinni hans Benna yfir Ermarsundið

þriðjudagur, 22. júlí 2008

Benna og Ermarsundförum fagnað

Starfsfólk ylstrandarinnar í Nauthólsvík og siglingaklúbbsins Sigluness bauð til móttöku til að fagna Benna og Ermarsundsförum. Boðið var upp á kaffi og bakkelsi úr bakaríinu þar sem Benedikt starfar.

Einnig voru fastagestir og vinir sem mættu og fögnuðu með okkur.

mánudagur, 21. júlí 2008

Kveðju grillveisla að hætti Bjössa kokks

Seinustu dagarnir voru frábærir hjá þeim David og Evelyn í Varne Rigde. Þau eru orðin góðir vinir okkar og það er eins og við höfum þekkt þau í 10 ár. Við héldum grillveislu seinasta kvöldið þar sem meistara kokkurinn Bjössi sýndi snilldi sína. Þar var mikið hlegið af sögum seinustu daga og Evelyn var orðin hás af hlátri seinna um kvöldi.

Einnig kynntumst bandaríski sundkonu að nafni Rendy Lynn en hún er ein besta Open Water sundkona heimsins í dag. Hún kom í gær ásamt móður sinni og mun reyna við Ermarsundið í næstu viku. Hún á 2. sundrétt vikuna 25. júlí - 1. ágúst með sama skipstjóra og við vorum með. Hún stefnir á að synda Ermarsundið á 8 klst en heimsmet kvenna er 7 klst og 25 mín !

Þökkum David og Evelyn frábærar móttökur á Varne Rigde.

sunnudagur, 20. júlí 2008

Þessu er lokið að sinni

Við erum runnin út á tíma gagnvart sundrétti okkar og veðurfari. Við héldum góðan fund með Andy King skipstjóra í kvöld. Miðað við sjólag og veðurfar næsta sólarhringinn þá erum við ekki að fara fyrr en seint á mánudaginn eða á þriðjudaginn í fyrsta lagi. Sundréttur okkar rann út laugardaginn 18. júlí en vegna viðleitni Andy´s við að aðstoða okkur, hliðraði hann réttinum okkar til aðfaranóttar mánudags. Við héldum í vonina að geta samið um að fara á mánudeginum en það gengur ekki upp.

Þessi orusta er töpuð en stríðið er ekki búið. Við töpuðum henni vegna þess að við komust aldrei sjálf í orustuna. Við ráðum ekki við bilaða vél, sjólag og veðurfar.

Verkefni landsliðsins í sjósundi hefur náð sínum tilgangi og gott betur þrátt fyrir að boðsundsveitin hafi ekki komist af stað. Benni hefur með sínu frábæra íþróttaafreki vakið gríðarlega mikla athygli á sjósundi. Hann er kyndilberi sjósunds á Íslandi.

Við höfum rutt brautina fyrir aðra íslenska sjósundmenn og boðsundsveitir til að reyna við Ermarsundið. Við erum reynslunni ríkari gagnvart reglukerfinu, veðurfari, sundréttunum og hefðum Ermarsundsins og síðan ekki síst biðinni sem tekur á. Það á eftir að koma sér vel í framtíðinni.

Það er frábært að sjá öll þessi jákvæðu stuðnings skilaboð á síðunni.

Kær kveðja til fjölskyldna, vina og styrktaraðila. Takk fyrir stuðninginn.

Nokkrar staðreyndir um boðsund yfir Ermarsundið

Alls hafa um 3.520 sundmenn tekið þátt í 592 boðsundum sem hafa tekist. 315 hafa farið fram og til baka. Það er um 40 prósent sem mistekst. Í ár hafa átta lið komist yfir. Sumir komast ekki af stað vegna veðurs og aðrir gefast upp vegna veðurs, sjóveiki og þreytu. Það eru mjög strangar reglur sem gilda um þetta. Ef einn í sveitinni er til dæmis sjóveikur og kemst ekki út í, þá er boðsundið ógilt.

Heimsmetið báðar leiðir á bandaríska landsliðið í sundi, 14 klst. og 18 mín. Við erum að gera okkur vonir um vera 20 - 24 klst báðar leiðir ef veður og sjólag leyfir.

Við höfum hitt aðrar boðsundsveitir sem hafa beðið eins og við. Breski herinn er til dæmis með sex lið sem ætla að keppa sín á milli. Þau eru með sína eigin báta þannig að þau fá þetta ekki skráð sem Ermarsund.

Sundmenn og boðsundsveitir eru háð skipstjóranum en hann ræður algjörlega ferðinni. Hann metur veður og sjólag og getu sundmanna sinna til að takast á við sjólagið hverju sinni. Við höfum lagt áherslu að við séum vön köldum sjó og sjólagi. Hann hefur tekið tillit til þess en hinsvegar bent okkur á að hann geti ekki tryggt öryggi okkar við vissar aðstæður.

Hvort sem það er einstaklingssund eða boðsund þá fer þetta allt eftir sjávarföllum, straumum, veðrum og síðan ekki síst alhliða sjósundformi þeirra sem synda. Það er ekki bara hraði og sundgeta sem skiptir máli heldur koma fleiri þættir inn eins og kuldaþol, langtímaþrek og síðan ekki síst hugarfarið.

Nú hefur Benni með sínu stórkostlega íþróttaafreki vakið gríðarlega mikla athygli á sjósundi. Hann er kyndilberi sjósunds á Íslandi og ef boðsundsveitinni tekst þetta, þá er verkefni sjósundlandsliðsins fullkomnað. Þá höfum við rutt brautina fyrir aðra íslenska sjósundmenn og boðsundsveitir til að reyna við Ermarsundið.

Sjá meira um tölfræði á þessari síðu. Þar má sjá að Benedikt er kominn inn á listann. :)

Synt inn í morgunsólina

Partur af boðsundsveit með Benna


Andy skipstjóri hringdi áðan og sagðist ekki vera bjartsýnn á að leggja af stað í nótt. Hann vildi þó ekki slá það af og við heyrum í honum kl 19:00 í kvöld. Ef við leggjum í hann seint í kvöld þá syndum við inn í morgunsólina hinum megin.


Ef þetta gengur ekki upp í kvöld þá förum við á stað um hádegi á morgun miðað við fara á flóði þ.e.a.s. liggjandanum. Við komum heim á þriðjudaginn þannig að mánudagurinn er nú okkar síðasti séns. Það gæti því farið svo að við látum nægja að synda aðra leiðina ef okkur verður hleypt af stað.

Veður, sjólag og síðast en ekki síst vélarbilanir hafa ekki verið okkur hliðholl í þessari ferð. Við áttum sundrétt á eftir Benna (Benni 3. og boðsund 4.) og bjuggumst við að fara daginn eftir hans sund miðað við veðurspána. Veðrið hér í Ermarsundinu virðist hins vegar breytast jafnfljótt og heima. Það virðist vera erfitt að spá fyrir þetta svæði því hérna mætast straumar og vindar úr öllum áttum. Biðin er sérstaklega erfið því okkur finnst alltaf vera kjöraðstæður til sunds enda vön kaldari sjó og verra sjólagi. Sjórinn hér við ströndina er um 17° en út á Ermarsundinu getur hann farið niðurí 15° en heima er hann um 10 - 12° á suðvesturhorni landsins yfir sumarið.

Það er ekki að marka það sem við sjáum á ströndinni og við verðum að hugsa til 24 klst fram í tímann þar sem við ætlum okkur fram og til baka ef tími vinnst til. Núna síðustu daga er hefur verið ríkjandi norðan átt og þótt vindurinn sé ekkert sérlega sterkur; 5-7 m/s, á íslenskan mælikvarða, þá rífur hann upp ölduna og sjórinn verður einn hrærigrautur. Í boðsundsveitinni eru tveir sem eru fyrrverandi sjómenn og þekkja þetta manna best.

Lagt af stað í kvöld

Útlit er fyrir að boðsundssveitin leggi af stað í kvöld, skipstjórinn á þó eftir að staðfesta það seinna í dag. Sveitin mun þá leggja af stað um kvöldið og hefja sundið í myrkri en synda svo inn í dagsbirtuna.

laugardagur, 19. júlí 2008

Bjartsýnn

Félagar, veðrið verður fínt á morgun hvað sem allar spár segja við treystum á flott sund. Ég hef mestar áhyggjur af því að báturinn sé ekki nægjanlega öflugur til að fylgja Heimi eftir. Hann er langfljótasti sjósundmaður Íslandssögunnar.
Benni Hjartar.

Myndasíða

Nýjar myndir eru komnar á myndasíðuna okkar

Bátsvél á þurru og seinasti sèns

Komum við hjá skipstjòranum eftir sundæfingu í morgun. Bátsvélin er nû kominn á þurt land og vélfræðingar vinna hörðum höndum við að koma bátnum í lag. Veðurspá ekki góð. Það lítur fyrir að morgudagurinn sé síðasti sènsinn okkar í þessum leiðangri. Vitum meira í kvöld.

Mótlæti er til að sigrast á

Þrátt fyrir langa og stranga bið eftir sundi, bilaðan mótor í bát, brælu, vondar veðurspár og núna síðast annað brotthvarf úr sveitinni, hefur stemningin aldrei verið betri. Fylkir þurfti frá að hverfa vegna fjölskylduaðstæðna. Nú erum við orðin ,,sexý sveit’’ og erum staðráðin í að klára þetta verkefni sem mikið hefur verið lagt í.

Við erum búin að koma okkur fyrir á nýja staðnum okkar, Varne Rigde sem er staðsettur við klettana á milli Dover og Folkestone. Þar höfum fengið höfðinglegar móttökur hjá þeim David og Evelyn. Þau gera út á að taka á móti Ermarsundsmönnum og hafa frætt okkur mikið um Ermarsundið . T.d. hafa þau sagt okkur sögu frá fátækum manni sem hefur 4 sinnum þurft frá að hverfa vegna veðurs þ.a.s aldrei fengið að dýfa sér Ermina til að synda. Hvert skipti kostar hann 10.000 pund þar sem hann kemur frá Ástralíu. David sagði að hann væri haldinn Channel Fever. Í gærkvöldi horfðum við á mjög forvitnilega mynd um þýskan sundkappa að nafni Christof Wandratsch sem reyndi við heimsmetið yfir Ermarsundið fyrir nokkrum árum síðan. Hann synnti 35 km (bein lína er 32 km) var 2 mín frá metinu ! Myndin sýndi einnig vonir og vonbrigði sundmanna við að reyna synda Ermarsundið.

Kíkt til veðurs
Spáin hefur versnað fyrir sunnudaginn en við heyrum í skipstjóranum í hádeginu. Þá vitum við stöðuna. Við erum vön að synda í alls konar veðri og sjólagi heima og okkur finnst vond veður hér vera ágætis sumarveður heima. En það verður taka tillit til þess að skipstjórinn ræður ferðinni og þótt sjólag líti ágætlega út héðan frá Dover þá getur verið bræla á miðju Ermarsundinu og þar sem við ætlum okkur fram og til baka þarf að horfa til 24 klst. fram í tímann.

Vel fagnad

Kominn heim

Stór hópur vina og vandamanna tók á móti Benna og lidinu hans í Leifsstöd.

föstudagur, 18. júlí 2008

Á heimleið

Kæru fjölskyldur, vinir, félagar, samstarfsaðilar og þeir sem fylgdust með sundinu yfir Ermina. Mér er efst í huga þakklæti til ykkar allra. Ekki hefur enn unnist tími til að lesa þær færslur sem settar voru inn á netið né þær athugasemdir og hvatningar sem þar komu fram. Það mun ég gera um leið og heim er komið. Sumar að þessum hvatningum fékk ég að heyra út í sjó og hlýnaði óneitanlega við það.
Þó að við sem tókum þátt í einstaklingssundinu höldum heim í kvöld (förum héðan kl 10 að enskum tíma) með flugvél frá Iceland Express, þá er hlutverki landsliðsins ekki lokið. Boðsundssveitin sem skipuð er okkar fremsta sjósundfólki á eftir að fara sitt sund. Ég veit að sveitin er tilbúin. Aðeins vantar sjólag og veður. Það er skelfilegt að bíða það veit ég manna best. Það er líka erfitt að veltast um á báti út á sjó synda um stund koma um borð ná ekki að hlýja sér til fulls og fara svo út í aftur. Endurtaka þetta nokkrumsinnum. Þetta er þrekraun sem sveitin er tilbúin í. Hún á eftir að standa sig með sóma. Við stöndum með þeim.

Kærar þakkir fyrir allt.
Benedikt Hjartarson.

fimmtudagur, 17. júlí 2008

Fyrstu drög af sundleiðinni hans Benna


Í kvöld er Heimir (meðlimur boðsundsveitar), sem stóð í ströngu í gær að halda öllu gangandi á bloggsíðunni, búinn að vera að vinna úr sundurslitnum upplýsingum úr Nokia Sports Tracker og staðsetningum sem komu til okkar meðan á sundinu stóð. Hér fyrir ofan eru fyrstu drög að sundleiðinni (smellið á myndina til að stækka). Von er á nákvæmari gögnum á morgun ásamt lýsingu á leiðinni.

Kveðja frá ríkistjórn Íslands !

Dagurinn er búinn að vera annasamur hjá Benna og boðsundsveitinni.

Eftir lítinn svefn hjá Benna og fylgdarliði byrjaði síminn að gala og hefur galað í allan dag.

Sundafrekið vakti gríðarlega athygli og má líkja stemmningunni á bloggsíðunni okkar við kosninganóttu. Fólk var alveg að fara á límingunum og beið spennt eftir nýjum færslum.

Á meðan sundinu stóð fékk síðan 15.136 heimsóknir!

Hér má sjá viðtöl við kappann í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 og RUV.

Um miðjan daginn komu allir saman á veitingarhúsinu White Horse en það er hefð fyrir því að Ermarsundsmenn skrái nafn sitt á veggi staðarins. Nú er þar íslensk nafn í fyrsta skiptið.
Eftir White Horse var farið með Benna niðri á strönd og hann snoðrakaður á ströndinni. Hárflygsurnar eru væntanlega fljótandi í Ermarsundinu þessa stundina.

Í kvöld fóru Benedikt og fylgdarlið ásamt vandamönnum út að borða. Gréta Ingþórsdóttir, fjölmiðlafulltrúi um borð í bátnum í gær, færði Benna formlega kveðju frá ríkistjórn Íslands.

Benedikt, Ingþór, Stefán Karl, Ásgeir og Kristinn eiga flug kl 22:00 á morgun. Það má búast við að þeir lendi um 01:00 í Keflavík á íslenskum tíma.

Eins og áður hefur komið fram þá hefur boðsundsveit framlengt dvöl sína og mun reyna við Ermarsundið fram og til baka á sunnudaginn ef veður og sjólag leyfir. Það var lán í óláni að vélarbilun kom upp í dag heldur en í gær þegar Benni var að synda.
Strax var farið í að redda gistingu fram á mánudag. Andy skipstjóri benti okkur á gististað að nafni Varne Ridge sem sérhæfir sig í að taka á móti Ermarsundsmönnum, til dæmis hengja þau upp skilti fyrir þá sem hafa synt Ermarsundið. Vonandi verður íslenski fánin þarna á meðal í næstu viku.

Góð stemmning hjá liðinu í Dover

Þrátt fyrir hrakfarir morgunsins og vikubið eftir Ermarsundi hefur stemmningin aldrei verið betri hjá landsliðinu í sjósundi. Tekinn var stöðufundur eftir sjóförina í morgun og nú er ljóst að boðsundsveitin mun synda á sunnudaginn ef veður og sjólag leyfir. Einn okkar öflugasti og reyndasti sjósundmaður, Kristinn Magnússon, getur því miður ekki verið með vegna anna heima við. Við erum því sjö eftir sem ætlum að klára þetta fram og til baka.

Benedikt hefur verið önnum kafinn við að svara fjölmiðlum og fjölskyldumeðlimum. Hann er ótrúlega hress eftir 60 km sund og 16 klst. í sjónum.

Eftirfarandi fréttatilkynning var send fjölmiðlum í dag:

Boðsundsveitin í sjósundi hefur framlengt dvöl sína í Dover í Englandi fram á mánudag og ætlar að gera nýja tilraun til að synda boðsund yfir Ermarsund á laugardag eða sunnudag. Boðsundsveitin átti að leggja í hann í morgun þó að veðurútlit væri slæmt. Sveitin fór út með fylgdarbátnum til að meta aðstæður og þá vildi ekki betur til en svo að gírkassinn í bátnum bilaði og varð að draga hann í land. Á Ermarsundi var bræla og aðstæður slæmar. Sami skipstjóri, Andy King, ætlar að fylgja boðsundsveitinni yfir Ermarsund en hann fór yfir með Benedikt Hjartarsyni í gær. Hrafnkell Marinósson, einn af sundmönnunum, segir að hann sé einstaklega þægilegur og góður skipstjóri og hann leyfi þeim að skjótast fram fyrir þá næstu sem eiga sundrétt. Hann ætli að leigja bát til að fylgja þeim yfir á laugardag eða sunnudag en þá er spáin góð.

Fleiri fréttir og myndir koma seinna í kvöld.

Dregnir í land

Er verið að draga okkur í land. Vitum meira um framhaldið á eftir.

Brjáluð bræla og gírkassinn bilaður

Ævintýrin gerast enn. Við sigldum út í morgun til að meta aðstæður. Þegar út var komið kom í ljós að það var brjáluð bræla og gírakassinn bilaður. Við erum nú í bakkgír og búin að reka nokkra kílómetra austur fyrir Dover. Dráttarbátur er á leiðinni á staðinn.

Siglum út

Heimir byrjar og Dáni þar á eftir ef veður og sjólag leyfir.

Boðsundsveitin gerir sig klára

Andy King skipstjóri ætlar að fara með okkur út og tékka á sjólaginu og meta hvort það sè hægt að synda yfir.

Boðsundsveit ætlar að reyna kl 11:00 ! (10:00 ísl)


Allar líkur voru á því að boðsundsveit færi ekki á stað vegna slæms sjólags og veðurútlits. Skipstjórinn Andy King var nánast búinn að slá sundið af og bauð okkur að skoða sunnudaginn. Það hefði þýtt að við værum á leiðinni heim á morgun.

Rétt í þessu hringdi hann aftur og sagði okkur á mæta niðri á bryggju kl 10:30 eða 9:30 að íslenskum tíma. Hann sá smá glætu og við erum staðráðin í að reyna við þetta. Mjög líklegt að við þurfum að fara í plan B og synda eina leið vegna slæms veðurs.
Röð á Boðsundsveit er eftirfarandi:
1. Heimir Örn Sveinsson
2. Hálfdán Freyr Örnólfsson
3. Kristinn Magnússon
4. Fylkir Þ. Sævarsson
5. Björn Ásgeir Guðmundsson
6. Hrafnkell Marínósson
7. Birna Jóhanna Ólafsdóttir
8. Hilmar Hreinsson
Þar sem þjónustuaðili fyrir GPRS samband er ekki að virka á Ermarsundinu þá er því miður ekki hægt að fylgjast með GPS í beinni með Nokia Sports Tracker nema fyrstu 5 km.
Eins og í gær þá stefnum við á að uppfæra síðuna okkar reglulega og færa fréttir frá sundi boðsundsveitar.
Sundleiðin og nánari lýsing í máli og myndum fyrir sund Benedikts og boðsundsveitar á morgun:

A job well done!
Er hat es geschafft!

Benedikt swam the English Channel in 16 hours today. He began at 8.36 on Wednesday morning, swam 60 km and reached the shore in France at 0.37 on Thursday morning.

Benedikt ist heute zwischen England und Frankreich geschwommen. Er ist um 0.37 Uhr in Frankreich ans Land gestiegen. Dann hat er 60 Km in 16 Stunden hinterlegt.

Allir glaðir

Benni og liðið um borð fagna afrekinu. Myndina tók Jón Karl Helgason sem er búinn að festa allt ævintýrið á filmu.

Hress en með mikla sjóriðu!


Benedikt Hjartarson var "ótrúlega hress," eins og Gréta Ingþórsdóttir orðaði það áðan, þegar við hringdum í hana. Sjálfur sagði hann að hann væri allur að koma til, hann væri bara "eins og dauðadrukkinn maður því að ég er með svo mikla sjóriðu."

Benedikt rifjaði upp að hann hefði misst af höfðanum þar sem hann ætlaði að taka land og það hefði lengt sundið um rúmar tvær klukkustundir. "Þetta hafðist en það var rosalega erfitt. Ég var tilbúinn að hætta síðustu sjö klukkustundirnar en skipstjórinn var svo harður að hann leyfði mér það ekki," sagði Benedikt þegar hann var nýkominn um borð í bátinn.

Hann sagðist líka vera ofsalega montinn og ánægður með afrekið og líka ánægður með allt fólkið heima sem hefði staðið með sér og hjálpað sér.

- Hvað tekur nú við?

"Ég hvíli mig til morguns og fer svo til White Horse í Dover, þar skrifa allir, sem hafa synt yfir Ermarsundið, nafnið sitt á vegg. Svo ætla ég bara að fylgjast með boðsundsveitinni á morgun að fara af stað og meika það," svaraði hann og kvaðst myndu hvíla sig en þó ekki sofna í bráðina, til þess væri hann alltof upptjúnaður.

miðvikudagur, 16. júlí 2008

Fyrsti Íslendingurinn til að synda yfir Ermarsundið

Liðsmenn boðsundsveitar óska Benna innilega til hamingju. Þeir eru búnir að sitja stíft við skjáinn í kvöld. Hér var brotið blað í Íslandsögunni með einu mesta íþróttarafreki fyrr og síðar. Benni lagði að baki 60 km sund á 16:01 klst ! Þetta afrek Benna tvíeflir boðsundssveitina fyrir sundið sem hugsanlega verður á morgun. Keli bíður með klippurnar...

Kominn!

Kl. 00.36 17. júlí - 60 km og 16.01 klst.

Kallinn sem kom honum yfir!

Andy King - algjört æði!

15.46

Ann eftirlitskona með mælinn. Nú segja þau að það séu 6 mínútur eftir.

"Við dólum á eftir þeim"

Mikil taugaspenna hefur verið um borð í bátnum sem fylgir Benedikt Hjartarsyni á Ermarsundi en nú er hún farin að dvína þar sem stýrimaðurinn Gary og Stefán Karl eru komnir um borð í litla bátinn til að fylgja Benedikt í land og taka hann svo til baka um borð í fylgdarbátinn.

Gréta Ingþórs segir að um tíma hafi staðan verið krítísk og verulegar áhyggjur um borð í bátnum þegar í ljós hafi komið að Benedikt hafi misst af höfðanum þar sem yfirleitt er komið í land. Straumurinn þar fyrir utan hafi verið mikill og erfiður en skipstjórinn hafi gripið til sinna ráða, látið hann synda alllengi alllangt frá landi, um tvo kílómetra frá landi, þar til hann kom að lítilli vík fyrir austan höfðann. Þar segir Gréta að séu víst minni straumáhrif og þar hafi skipstjórinn ákveðið að taka Benna að landi.

"Nú erum við stopp á stóra bátnum og litli báturinn er að fylgja honum síðasta spölinn. Við erum hér í myrkri í bókstaflegri merkingu þar til þeir koma aftur og það gæti kannski tekið hálftíma. Það er enginn mótor á tuðrunni, Benedikt syndir í land og litli báturinn fylgir honum og svo koma þeir saman á litla bátnum til baka," segir hún.

"Við erum þúsund metra frá landi og maður rétt sér grilla í ljósin þar sem þeir eru. Þeir taka stefnuna fyrir hann af því að það eru svo mörg ljós í landi og ég veit ekki á hvað þeir stefna en stýrimaðurinn þekkir það. Við dólum á eftir þeim en förum ekki mikið nær landi," segir hún.

Samkvæmt tölunum um borð í bátnum er Benedikt búinn að synda tæpa 60 kílómetra og hann verður búinn að synda í um 16 klukkustundir þegar hann nær landi.

Litli báturinn lagður af stað



Gary og Stefán eru lagðir af stað á litla bátnum til að fylgja Benna síðasta sprettinn.

Benni er um 20 mín að klára 1 km.

Styrkja Ermarsund 2008

Aðeins 1km eftir

Og nú er aðeins hálftími eftir ef allt gengur vel. Litli báturinn er kominn í sjóinn og aðeins einn kílómetri eftir.

Fer með í litla bátinn

Stefán Karl fer með í litla bátinn sem fylgir Benna í land og kemur svo með hann aftur.

Styrkjum Ermarsund 2008

Síðustu sundtökin



Stefán Karl og Ingþór fylgjast vel með Benna taka síðustu sundtökin. Það er búið að pumpa aukalega í bátinn sem verður notaður til að taka hann út í fylgdarbátinn aftur og Gary er kominn í blautbúninginn. Þetta er að takast!


Kapteinninn veðjar á Benna!


Kapteinn Andy King er búinn að veðja 10 pundum að Benni verði kominn í land innan einnar klukkustundar!

Við ætlum að hafa það!



Benni syndir af ótrúlegum krafti. Við misstum af höfðanum Cap Gris-Nez en Andy skipstjóri ætlar að ná honum að landi aðeins austar. Við erum að reyna að halda kúlinu - gengur misvel. Benni fær orkute til að klára þetta!

Styrkja Ermarsund 2008

Nú ræðst þetta fljótlega



Benni syndir enn á góðum hraða. Nú ræðst fljótlega hvort hann nær landi. Við erum 2,2 km frá ströndinni. Förum með straumnum en nálgumst ekki land.

Staðsetning sunds fyrir 20 mín. síðan var 50.8809 N 1.5625 E.

Þetta skal takast!!!




Það getur ráðið úrslitum um hvort landtaka tekst, hvernig stefnan er þegar komið er upp að ströndinni. Nú fylgist Andy skipstjóri með hverri hreyfingu sundmanns, báts og allra um borð. Sumir eru orðnir vondaufir en aðrir segja "cheer up!" Þetta er ekki búið fyrr en þetta er búið. Aðeins 3,09 km í land! Þetta skal takast!


Skítaspá fyrir morgundaginn



Góð stemmning er hjá landsliðinu í sjósundi þar sem það bíður í Dover eftir að Benedikt ljúki sundinu til Frakklands og eftir að geta startað boðsundinu í fyrramálið. Hrafnkell Marinósson, Keli, sjósundmaður segir að spáin sé engin draumaspá, "skítaveður, rigning og rok en við ætlum samt af stað."

Keli segir að skipstjórinn sem nú fylgir Benedikt yfir Ermarsundið eigi að koma til baka í nótt og fylgja landsliðinu yfir. Landsliðið hafi plan B og það sé að synda yfir en ekki til baka. "Hann gerir sér grein fyrir því gæinn," segir Keli. "Við erum í óþægilegri stöðu en næst á óskalistanum hjá okkur er að massa þetta."

Benedikt á tiltölulega stutt í land og Keli segist sannfærður um að Benedikt takist það. "Hann klárar þetta. Ég er nánast öruggur um það," segir Keli. "Hann lofaði mér því að ég fengi að snoða hann og ég er farinn að hlakka mikið til. Benedikt er að verða eins og Skreppur seiðkarl, Albert Einstein eða Sigurbjörn biskup. Hann líkist þeim öllum í bland, svo miklar eru lufsurnar á honum."

Keli segir að mórallinn sé góður og hópurinn taki þessu öllu með léttri lund. Sundmennirnir séu búnir að pakka tvisvar ofan í sjópokann, taka til blöndur í drykki og tékka hvert annað af. Hann segir að þau séu ekki að fara á taugum heldur séu hæfilega taugatrekkt. "Skilaðu kveðju frá okkur öllum," segir hann.

Veðrið hefur verið fagurt á Ermarsundi í dag, sól og vindhraði einn metri.

Lokaspretturinn er drjúgur


Þegar Benni fékk næringu síðast spurði hann hvort þetta ætlaði engan endi að taka. Kannski ekki skrítið að hann spyrji eftir 13 tíma á sundi. Hann heldur góðum meðalhraða og hefur lagt 46 km að baki.

Nú er Benedikt kominn suður fyrir tangann Cap Gris-Nez. Hann er um það bil 4 km frá landi. Hann á eftir að taka beygjuna inn í land og inn fyrir tangann. Staðsetningin er mjög góð miðað við í fyrra því þá vorum við ekki komnir sunnan fyrir tangann þegar við beygðum inn að landi. Á Google Earth er hægt að reikna það út að hann er 4 km frá landi!

Staðsetning er N.50.8470 E.1.5078 og gefur á Google Earth:


Við vorum að frétta af tveimur sundmönnum sem eru komnir í land Frakklandsmegin en þeir lögðu af stað fimm til fimm og hálfum tíma fyrr í hann í morgun.

Styrkja Ermarsund 2008

Syndir hraðar en áður

Benedikt Hjartarson er nú búinn að synda 43 kílómetra og bein lína í land er sjö kílómetrar. Hann syndir nú á 3,8 kílómetra meðalhraða sem er mjög gott og hraðar en hann hefur verið að synda á í dag, að sögn Grétu Ingþórsdóttur, sem er um borð í fylgdarbátnum.

Gréta segir að Benedikt sé kominn ótrúlega nærri landi, svo nærri að þau hafi verið "farin að telja húsin." Hún segir að mistur sé komið yfir og senn fari að rökkva en ekki sé enn komið myrkur.

Benedikt hafi verið að skipta um gleraugu og fengið þá um leið band með litlum ljósstautum til að setja á sig og einnig til að festa í teygjuna á sundgleraugunum. Hún hafi reynt að taka mynd af því en sé ekki viss um að það skili sér.

Gréta segir að fínt hljóð sé í Benedikt og liðinu um borð í bátnum. Benedikt haldi sínu striki og sundið gangi mjög vel þó erfitt sé í öldunum. Ef allt gangi eftir eigi Benedikt að ná í land í Frakklandi einhvern tímann í kvöld.

Búið að flagga

Nú er búið að festa íslenska fánann á bátinn. Það þýðir þó ekki að menn séu að gleðjast of snemma. Það er bara við hæfi. Í næstu gjöf fær Benni lítil ljós til að festa á sig, enda fer að skyggja fljótlega.